Joan Cusack hefur hlotið Emmyverðlaunin og í tvígang verið tilnefnd til Óskarsverðlauna.
Joan Cusack hefur hlotið Emmyverðlaunin og í tvígang verið tilnefnd til Óskarsverðlauna. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar manna þarf hlutverk torkennilegra kvenna hafa leikstjórar tilhneigingu til að slá á þráðinn til hinnar bandarísku Joan Cusack – enda hefur hún rúllað slíkum verkefnum upp áratugum saman. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Ég var í skapi fyrir jólamynd á dögunum og eftir örvæntingarfulla leit á efnisveitunum mínum varð sjónvarpsmyndin The Christmas Train frá 2017 fyrir valinu. Hugguleg mynd með fallegum boðskap, eins og tilgangur slíkra mynda er alla jafna, en svo sem ekkert meira um það að segja. „Hvers vegna í ósköpunum er maðurinn þá að greina mér frá þessu?“ hugsar þú ábyggilega núna, lesandi góður. Upphátt, þannig að nærstaddir horfa lítið eitt undarlega á þig. Jú, The Christmas Train er enn ein myndin eða sjónvarpsþátturinn þar sem bandaríska leikkonan Joan Cusack leikur skrýtna konu. Fljótt á litið man ég, satt best að segja, ekki eftir þeirri ágætu konu í annars konar hlutverki. Hún er alltaf sérkennileg á tjaldinu eða skjánum. Á eina lund eða aðra.

Að þessu sinni var Cusack að leika furðulegu forvitnu konuna sem hefur kinnroðalaust afskipti af símtölum bláókunnugs fólks á lestarstöðvum.

„Varstu að tala við eiginkonu þína?“

„Ha, nei.“

„Nú, var þetta þá kærastan?“

„Fyrirgefðu, hver ert þú eiginlega?“

Þið kannist við týpuna! Þessi sem skýtur óvænt upp kollinum í miðju samtali sem hún á ekki aðild að og kemur andskotanum ekkert við um hvað verið er að tala. Og hananú. Manni rennur bara í skap við að skrifa um þetta.

Eins og fyrri daginn gerir Cusack þetta listavel; það er eins auðvelt og eðlilegt fyrir hana að fara í föt sérkennilegu konunnar og fyrir Sigmund Erni að ota gleraugunum sínum að næsta manni í sjónvarpssettinu. Þegar maður hugsar út í það þá yrði Joan Cusack mergjaður Sigmundur Ernir í kvikmynd um líf þess mæta manns og störf. Minnið mig á að tryggja mér einkaleyfi á þeirri hugmynd!

Cusack, sem verður sextug á næsta ári, kom fyrst fram á sjónarsviðið í blábyrjun níunda áratugarins í fisléttum myndum á borð við My Bodyguard, Class og Sixteen Candles. Iðulega í aukahlutverki en yngri bróðir hennar, John Cusack, lét meira að sér kveða. Jú, jú, þau eru systkini, eins og þið sjáið nú þegar þið skoðið myndirnar – og vissuð það ekki fyrir. Þriðja systkinið, Ann, sem er elst, hefur einnig þjónað leiklistargyðjunni mestallt sitt líf en staðið í skugga hinna tveggja. Alls hafa Joan og John leikið saman í tíu kvikmyndum sem gæti verið einhvers konar systkinamet enda þótt ég þori ekki að fullyrða um það. Einhverjar tvíburatýpurnar slá þessu ugglaust við.

Grísk eða lúðsk?

Vel fer á því að Cusack hafi leikið gríska stúlku í Sixteen Candles en hún er tvímælalaust þessleg í útliti. Fyrir nokkrum árum hýstum við hjónin einmitt grískan skiptinema í heila viku sem var eftir á að hyggja sláandi lík Cusack. Hefði hæglega getað verið dóttir hennar. Í því ljósi urðu það mér mikil vonbrigði þegar ég áttaði mig á því eftir að hafa sett þetta á blað að ég hafði mislesið upplýsingarnar; Cusack lék ekki „Greek Girl“ í téðri mynd, heldur „Geek Girl“, það er lúðastelpu (eða segir maður bara „lúðu“?), og það #1. Nú man ég þetta ekki almennilega en sú persóna hefur án efa verið vel skrýtin.

Ég man betur eftir Cusack í The Allnighter frá 1987, þar sem hún lék uppátækjasama nýhippíska stúdínu sem blandaði grasi saman við lambakássuna sína á venjulegum þriðjudegi. Sú ágæta ræma fékk hraksmánarlega dóma (státar af því að vera með 0% á Rotten Tomatoes) en man maður ekki alltaf best eftir verstu myndunum sem maður sér? Samt voru kempur þarna, eins og töffararnir Pam Grier og Michael Ontkean, sem skömmu síðar gerði garðinn frægan í Twin Peaks. Deedee Pfeiffer, systir Michelle (fyrir þá sem hafa áhuga á ættfræði), kom einnig við sögu, eins Susanna Hoffs úr Bangles sem sneri sér eftir það alfarið að tónlistinni. Gott ef mamma hennar leikstýrði ekki þessari alræmdu mynd. Sem skýrir ýmislegt.

Ferillinn fór á flug

Þrátt fyrir þennan skell fór ferill Cusack á flug í framhaldinu. Hún lék í vinsælum myndum á borð við Broadcast News, Married to the Mob og Working Girl, þar sem hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta leikkona í aukahlutverki. Hvorki meira né minna. Cusack endurtók þann leik tæpum áratug síðar, fyrir framgöngu sína í In & Out. Hreppti þó hnossið í hvorugt skiptið.

Í síðarnefndu myndinni hristir hún af sér heil 34 kg til þess eins að vera svikin af unnusta sínum uppi við altarið. „Sorrí, Stína, ég er hinsegin!“

Af öðrum myndum Cusack má nefna Toy Story-seríuna, þar sem hún talar fyrir Jessie, Confessions of a Shopaholic og My Sister's Keeper.

Þrátt fyrir gott gengi í kvikmyndum gegnum tíðina eru flestir sammála um að Cusack hafi unnið sinn stærsta leiksigur í sjónvarpi – sem hin óborganlega Sheila Jackson í hinum makalausu spédramaþáttum Shameless, amerísku útgáfunni. Því til staðfestingar var hún tilnefnd til Emmyverðlauna sem besta gestaleikkona fimm ár í röð, 2011-15, og vann í seinasta skiptið.

Minnstu munaði að Cusack hreppti alls ekki hlutverk Sheilu; Allison Janney lék hana í prufuþættinum en varð að segja sig frá verkefninu eftir það vegna þess að það skaraðist við aðra þætti sem hún var að leika í á sama tíma. Þá strax vildu framleiðendur Shameless hlut Sheilu meiri en að var stefnt í blábyrjun. Nema hvað?

Fyrir þá sem eru svo ólánsamir að hafa ekki séð Shameless þá er Sheila Jackson velviljaður og hjartahreinn nágranni Gallagher-fjölskyldunnar, er veislan hverfist um, sem hefur þungan kross að bera í þessu lífi. Okkar kona er sumsé með fóbíu fyrir því að fara úr húsi. Grínlaust. Fyllist skelfingu við tilhugsunina eina saman. Það færir ættfaðir Gallagheranna, Frank, sér að sjálfsögðu í nyt og tælir Sheilu til lags við sig. Frank Gallagher er sem kunnugt er mesti tækifærissinni sjónvarpssögunnar og siðlaus inn að beini. Og raunar inn fyrir bein og merg.

Cusack sagði skilið við Shameless 2015 og hefur ekki verið ýkja áberandi síðan. Tvær seinustu bíómyndir hennar eru jólamyndirnar Let It Snow og Klaus, báðar 2019. Í þeirri fyrri leikur hún karakter sem kallast „álpappírskonan“. Hvaða önnur leikkona hefði komið þar til álita?

Hvað mynduð þið annars kalla myndina um Sigmund Erni?