[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alda Björg Guðjónsdóttir fæddist 11. desember 1971 í Reykjavík og ólst þar upp fyrstu fimm ár ævinnar. Frá fimm til átta ára bjó hún í Kópavogi.

Alda Björg Guðjónsdóttir fæddist 11. desember 1971 í Reykjavík og ólst þar upp fyrstu fimm ár ævinnar. Frá fimm til átta ára bjó hún í Kópavogi.

„Ég fór samt í Langholtsskóla því mamma mín vann á Langholtsveginum á saumastofu ömmu minnar og afa svo ég dvaldi þar öllum stundum eftir skóla að hjálpa til. Ég pakkaði ullarpeysum sem voru að fara utan í sölu og hjálpaði til á saumastofunni. Ég fæ algjöra endurupplifun til þessara góðu tíma þegar ég finn lykt af blautri ull því á saumastofunni var ullin unnin frá þræði; ofin, þvegin, þurrkuð, kembd og svo sniðin og saumuð. Þarna lærði ég að sauma.“

Alda fór ekki í sveit, en foreldrar hennar fóru um hverja helgi á tímabili í Kvíslhöfða á Mýrum þar sem systir föðurafa hennar bjó. „Við vorum í hjólhýsi og þetta voru skemmtilegar ferðir í sveitina þó svo að ég hafi verið skíthrædd og hlaupið inn þegar beljurnar komu heim. Er enn smá hrædd við beljur.“

Þegar Alda var átta ára flutti fjölskyldan á Álftanes en Alda er Álftnesingur aftur í ættir; langafi hennar og langamma bjuggu í Hákoti. „Foreldrar mínir búa á Álftanesi og systkini, og þegar foreldrar mínir byggðu hús fyrir langömmu mína eftir að langafi dó, þá bjó hún og systir hennar hjá okkur um tíma þegar ég var unglingur. Ég ólst því upp að hluta með þeim og spilaði við þær rommí og vist.“

Alda gekk í Álftanesskóla þangað til Garðaskóli tók við á unglingsárunum og þaðan fór hún í Fjölbrautaskólann í Garðabæ. „Félagslífið átti meira við mig en skólinn sjálfur svo ég kláraði ekki skólann. Ég fór þá að vinna á pítuveitingastað 17 ára. Á þessum tíma var ég líka ólétt að fyrsta barni mínu, Ágústi Ara. Eftir að hann fæddist vann ég í Hagkaup í Kringlunni, ásamt því að vera þjónn á Veitingastaðnum Tjörninni og á Skuggabarnum um helgar.“ Hún prófaði síðan að vera dagmamma eftir að hún eignaðist dótturina 1997 til að geta verið meira heima.

„Það átti nú ekki vel við mig, prófaði það í eitt ár. En eftir það fór ég að sauma, rak saumastofu ásamt tveimur vinkonum mínum, sá um viðgerðir fyrir búðir á Laugaveginum og saumaði og hannaði eigin línu, sem hét Bleikur, en ég hannaði og saumaði föt m.a. fyrir verslunina Fríðu og dýrið. Árið 2000 fór ég svo líka út í stíliseringu.“

Alda er sögð einn fremsti stílisti landsins, en stílisti sér um að velja föt og fleira á fólk sem kemur fram í auglýsingum eða kvikmyndum, og vinnur þá náið með leikstjóra eða ljósmyndara við að finna rétta útlitið.

„Vinnudagurinn hjá mér var þannig að ég byrjaði daginn á að bera út póst, vann svo á saumastofunni og síðan sem stílisti. En svo fannst mér svo skemmtilegt að vera stílisti að ég sneri mér alveg að því og hætti með saumastofuna. Ég held líka að ég hafi saumað yfir mig þegar ég eignaðist tvíburana árið 2002 því ég snerti ekki saumavélina í 15 ár eftir það.“

Öldu finnst mun skemmtilegra að vinna við auglýsingar en kvikmyndir og hefur haldið sig við það. „Verkefnin taka styttri tíma og ég vil sofa heima og vera hjá börnunum mínum. Svo hef ég í seinni tíð einnig unnið sem „casting director“,“ en það starf hefur verið þýtt sem prufuleikstjóri. Í því felst að velja fólkið í hlutverkin og finna fólk í auglýsingar.

„Stundum fer þetta vel saman við að vera stílisti en stundum er það ekki hægt eins og í síðustu viku þegar ég þurfti að finna 70 manns fyrir auglýsingu fyrir Happdrætti Háskóla Íslands. Ég hefði ekki líka getað verið að hanna búningana. Ég er líka komin á þann aldur að ég er farinn að velja vinnutíma minn meira.“

Áhugamál Öldu eru ferðalög og að fara á tónleika. „Ég fer mjög mikið til Amsterdam, en það er uppáhaldsborgin mín ásamt París. Ég hef ekki komist mikið á tónleika í Covid en stefnan er að fara næsta sumar á Red Hot Chili Peppers í Barcelona. Ætlum að fljúga til Amsterdam nokkrir vinir og keyra síðan suður til Barcelona.“

Fjölskylda

Börn Öldu eru Ágúst Ari Þórisson, f. 10.11. 1989; klippari við kvikmyndir, búsettur á Álftanesi, Júlía Tómasdóttir, f. 17.5. 1997, stílisti, búsett í Grafarvogi, og tvíburarnir Marína Rós Öldudóttir, og Mikael Elí Ingason, f. 18.11. 2002, en þau búa hjá móður sinni á Álftanesi.

Systkini Öldu eru Íris Dögg Guðjónsdóttir, f. 26.11. 1985, símavörður á Landspítalanum, búsett á Álftanesi; Daníel Þór Guðjónsson, f. 2.1. 1986, vinnur við réttingar og bílamálun, búsettur á Álftanesi.

Foreldrar Öldu eru hjónin Guðjón Ágúst Sigurðsson, f. 15.8. 1954, bílamálari, og Hjördís Vilhjálmsdóttir, f. 5.11. 1953, húsfreyja. Þau eru búsett á Álftanesi.