Barátta Luciano Massarelli og Triston Simpson eigast við í hörkuleik Þórs frá Þorlákshöfn og ÍR í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í gærkvöldi.
Barátta Luciano Massarelli og Triston Simpson eigast við í hörkuleik Þórs frá Þorlákshöfn og ÍR í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Körfubolti Gunnar Egill Daníelsson Víðir Sigurðsson Þór frá Þorlákshöfn og Stjarnan eru búin að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla, VÍS-bikarsins, með sigrum í átta liðum úrslitum keppninnar í gærkvöldi.

Körfubolti

Gunnar Egill Daníelsson

Víðir Sigurðsson

Þór frá Þorlákshöfn og Stjarnan eru búin að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni karla, VÍS-bikarsins, með sigrum í átta liðum úrslitum keppninnar í gærkvöldi.

Þór heimsótti ÍR og hafði afar nauman 79:77-sigur í æsispennandi leik í Seljaskóla. Luciano Massarelli og Daniel Mortensen voru stigahæstir Þórsara með 19 stig hvor. Þá lék Glynn Watson vel er hann náði tvöfaldri tvennu. Skoraði hann 12 stig, tók 14 fráköst og gaf átta stoðsendingar að auki. Igor Maric var stigahæstur ÍR-inga með 17 stig og skammt undan var Sigvaldi Eggertsson með 15 stig. Jordan Semple náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði 10 stig og tók 13 fráköst.

Stjarnan fékk þá Grindavík í heimsókn í Garðabæinn í hörkuleik. Eftir að Grindavík hafði byrjað betur sneru Stjörnumenn taflinu við og unnu að lokum 85:76. Eugene Turner III fór fyrir Stjörnumönnum og náði tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 23 stig og tók 11 fráköst. Stigahæstur Grindvíkinga í leiknum var landsliðsmaðurinn Ólafur Ólafsson, sem skoraði 25 stig og tók einnig níu fráköst.

Síðari tveir leikir átta liða úrslitanna fara fram í kvöld.

Haukar og Njarðvík líkleg

Haukar og Njarðvík eru sigurstranglegustu liðin í bikarkeppni kvenna en þau eru komin í undanúrslit VÍS-bikarsins ásamt Breiðabliki, sem er næstneðst í úrvalsdeildinni, og Snæfelli, sem er í neðri hluta 1. deildarinnar.

Haukakonur þurftu að hafa talsvert fyrir því að vinna topplið 1. deildar, ÍR, í Seljaskóla, 76:58. ÍR hélt í við Haukana stóran hluta leiksins. Bríet Sif Hinriksdóttir skoraði 15 stig fyrir Hauka og Elísabeth Ýr Ægisdóttir 13. Haiden Palmer var með þrefalda tvennu, 10 stig, 13 stoðsendingar og 18 fráköst. Irena Sól Jónsdóttir skoraði 19 stig fyrir ÍR og Danielle Reinwald var með 15 stig og 18 fráköst.

Njarðvík vann Fjölni 89:88 í stórleik átta liða úrslitanna, eftir framlengingu. Aliyah Collier átti sannkallaðan stórleik með Njarðvík og skoraði 42 stig og tók 17 fráköst. Aliyah Mazyck skoraði 34 stig fyrir Fjölni og Dagný Lísa Davíðsdóttir 18.

Breiðablik vann mjög öruggan sigur á fyrstudeildarliði Hamars/Þórs, 101:75, í Smáranum. Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 19 stig fyrir Breiðablik og Telma Lind Ásgeirsdóttir 18 en Astaja Tyghter skoraði 30 stig fyrir Sunnlendinga.

Loks hafði Snæfell betur gegn Stjörnunni í slag fyrstudeildarliðanna í Garðabæ, 67:61. Sianni Martin skoraði 19 stig fyrir Snæfell og Rebekka Rán Karlsdóttir 18 en Diljá Ögn Lárusdóttir skoraði 19 stig fyrir Stjörnuna.