Ásgeir Margeirsson fæddist 13. desember 1961 í Keflavík og ólst þar upp. Hann var í sveit í Kjarnholtum í Biskupstungum og vann í æsku sumarstörf við fiskvinnslu, á Keflavíkurflugvelli og á sjó.
Ásgeir gekk í Barnaskólann og Gagnfræðaskólann í Keflavík og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja af eðlisfræðibraut vorið 1980. Hann kenndi við Gagnfræðaskólann á Ísafirði veturinn 1980-81. Hann stundaði nám í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands, lauk C.Sc.-prófi vorið 1985. Hann vann á sumrum með námi við virkjanaframkvæmdir á Suðurlandi.
Ásgeir vann á Verkfræðistofu Stanleys Pálssonar 1985-1986, en síðan flutti fjölskyldan til Lundar í Svíþjóð sumarið 1986 og Ásgeir hóf nám við Tækniháskólann í Lundi. Hann lauk þaðan Lic.Techn.-prófi í framkvæmdafræði sumarið 1989. Hann starfaði á sumrum á háskólanum og hjá verktakafyrirtækinu Skanska.
Fjölskyldan fluttist heim sumarið 1989 og settist að í Hafnarfirði. Ásgeir hóf störf hjá SH Verktökum og starfaði þar til ársloka 1992 við byggingarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og í Blönduvirkjun. Hann starfaði hjá Eimskip við gámarekstur 1993 og 1994, en í ársbyrjun 1995 hóf hann störf sem tæknistjóri Jarðborana hf. „Ég stjórnaði borverkefnum fyrirtækisins á Íslandi, á Írlandi og á Asoreyjum.“ Það með var Geiri kominn í orkugeirann.
Í ársbyrjun 2000 tók Ásgeir við starfi aðstoðarforstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. „Megináherslur í starfinu voru varðandi rekstur og framkvæmdir tengdar veitum og orkuframkvæmdum. Ég kom t.a.m. að útvíkkun á hitaveitu- og vatnsveiturekstri Orkuveitunnar á Suður- og Vesturlandi og uppbyggingu orkuvera á Hengilssvæðinu. Sinnti einnig starfsemi Orkuveitunnar er laut að útflutningi á tækniþekkingu í samstarfi við önnur íslensk orku- og tæknifyrirtæki og var um tíma stjórnarformaður Enex. Ég ferðaðist í þessu skyni víða um heim og m.a. oft til Kína, þar sem fyrstu skrefin voru tekin í nútímahitaveituvæðingu í Kína þar sem íslensk þekking var nýtt.“
Í ársbyrjun 2007 tók Ásgeir við starfi forstjóra Geysis Green Energy, nýs fyrirtækis sem fjárfesti í orkuverkefnum víða um heim. Starfsemi Geysis var lögð niður í kjölfar fjármálahrunsins og í upphafi árs 2010 hóf Ásgeir að starfa fyrir kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy. „Ég byggði upp starfsemi þess á Íslandi, ekki síst varðandi fjárfestingu í HS Orku.“ Ásgeir var stjórnarformaður HS Orku 2010-2013 og tók við starfi forstjóra HS Orku í ársbyrjun 2014 og sinnti því starfi fram í árslok 2019. Hann hefur sinnt stjórnarsetu og stjórnarformennsku í fjölmörgum félögum í allmörgum löndum.
Frá 2020 hefur Ásgeir starfað sem ráðgjafi hjá eigin félagi sem ber nafn sveitaseturs fjölskyldunnar og heitir Unnarholt. „Þar sinni ég ýmsum verkefnum er snúa að orkumálum, skipulags- og byggingarmálum og ýmsum rekstrartengdum verkefnum. Ég hef notið þess að hafa ástríðu fyrir verkefnunum hverju sinni.“
Ásgeir hefur sinnt fjölmörgum félagsstörfum í gegnum árin, var t.a.m. gjaldkeri Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja, var formaður tennisdeildar Badmintonfélags Hafnarfjarðar í sjö ár, sat í
stjórn Tennissambands Íslands og var með dómararéttindi í tennis. Hann hefur unnið mikið að félagsmálum hestamanna, setið í ýmsum nefndum á vegum Landssambands hestamannafélaga og í stjórn Hestamannafélagsins Sörla, sem veitti honum nýlega gullmerki fyrir vel unnin störf að uppbyggingarmálum félagsins. Hann sat í nokkur ár í stjórn meistaradeildarinnar í hestaíþróttum.
Helstu áhugamál Ásgeirs á fyrri árum voru skíði og hestamennska en nú eru það hestamennska og fluguveiði. „Það er þó sagt með þeim fyrirvara að fjölskyldan er aðaláhugamálið. Svo hefur vinnan og hrein orkuvinnsla hefur líka verið mikið áhugamál, og í raun ástríða hjá mér. Frænkur mínar kalla mig gjarnan Orkugeira.
Hestamennskan er í raun mun meira en áhugamál, hjá okkur er hún lífsstíll sem hefur markað djúp og góð spor í fjölskylduna, enda eru tveir sonanna þriggja menntaðir í hestamennsku og búvísindum. Sá sonanna sem ekki er hestamaður er verkfræðingur. Ég tók fyrir nokkrum árum upp á því að keppa í hestaíþróttum. Sú áskorun var stór og hefur veitt mér ómælda ánægju og framför á því sviði, eftir að hafa verið „útreiðakall“ í 40 ár.“
Fjölskylda
Eiginkona Ásgeirs er Sveinbjörg Einarsdóttir, f. 20.12. 1955, hjúkrunarfræðingur. Þau eru búsett í Garðabæ. Foreldrar Sveinbjargar eru hjónin Einar Jónsson, skrifstofumaður, f. 4.1. 1935 í Hafnarfirði, og Guðrún Einarsdóttir, húsmóðir og fv. starfsstúlka, f. 28.7. 1934 á Ormarsstöðum í Fellum. Þau eru búsett í Reykjavík.Börn Ásgeirs og Sveinbjargar eru 1) Margeir, f. 15.1. 1986, rekstrarverkfræðingur. Í sambúð með Herdísi Ómarsdóttur rekstrarverkfræðingi. Búsett í Garðabæ. Börn þeirra eru Valdís Eva, f. 2012, Ásgeir, f. 2014, og Ómar Atli, f. 2016; 2) Einar, f. 31.10. 1987, fóðurfræðingur og kynbótadómari. Kvæntur Hrönn Hafliðadóttur landslagsarkitekt. Búsett í Hafnarfirði. Dætur þeirra eru tvíburarnir Unnur og Hlín, f. 2014, og Þóra Guðrún, f. 2019; 3) Ólafur, f. 27.2. 1992, hestafræðingur og reiðkennari. Í sambúð með Lizu Esmeröldu Karlsson, reiðkennara og skrifstofumanni. Búsett í Borås, Svíþjóð. Dóttir þeirra er Íris Lilja, f. 2019.
Systkini Ásgeirs: Árni Margeirsson, f. 29.10. 1957, d. 25.6. 1997, teiknari og útgefandi, var búsettur á Egilsstöðum; Ragnhildur Margeirsdóttir, f. 10.6. 1960, skrifstofumaður, búsett í Njarðvík, og Veigar Margeirsson, f. 6.6. 1972, tónskáld. Var lengi búsettur í Los Angeles, en býr nú í Kópavogi.
Foreldrar Ásgeirs: Hjónin Margeir Ásgeirsson, fiskmatsmaður frá Hnífsdal, f. 12.8. 1931, d. 20.10. 1993, og Ásthildur Árnadóttir, fv. skrifstofumaður frá Ísafirði, f. 2.9. 1938. Þau bjuggu í Keflavík, en Ásthildur er nú búsett í Njarðvík.