Langdregið Faraldurinn hefur dregist nokkuð á langinn og heimildaþættirnir feta sama veg.
Langdregið Faraldurinn hefur dregist nokkuð á langinn og heimildaþættirnir feta sama veg. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Erfitt getur verið að skrásetja sögu sem enn er að eiga sér stað og verður því þáttaröðin Stormur, sem fjallar um baráttu gegn faraldri Covid-19 hér á landi, ekki sýnd yfir hátíðarnar eins og stóð til.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Erfitt getur verið að skrásetja sögu sem enn er að eiga sér stað og verður því þáttaröðin Stormur, sem fjallar um baráttu gegn faraldri Covid-19 hér á landi, ekki sýnd yfir hátíðarnar eins og stóð til. Stefnt er að því að frumsýna þættina á fyrri hluta næsta árs, að sögn Jóhannesar Kr. Kristjánssonar framleiðanda. Með honum starfa þeir Sævar Guðmundsson leikstjóri og Heimir Bragason klippari.

Sá síðastnefndi hefur þurft að horfa á allt myndefni sem safnast hefur í sarpinn á hvorki meira né minna en 375 tökudögum.

Ríkisútvarpið mun kaupa þættina og frumsýna þá mögulega yfir páskana, en nú er í það minnsta vitað að ekki er um jólaefni að ræða. „Ég held líka að fólk hafi horft á það að við erum í miðjum faraldri ennþá og fólk er bara orðið dálítið leitt á þessu. Kannski ekki alveg tilbúið að horfa á einhverja seríu um upphafið að þessu og svona,“ segir Jóhannes í samtali við Morgunblaðið.

Í vor var gefin út stikla að þáttaröðinni þar sem Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fellir tár í einlægu viðtali, fjölskyldu í Bolungarvík er fylgt eftir og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræðir viðbrögð við farsóttinni. Áhorfendur fá að skyggnast á bak við tjöldin og fylgjast með þríeykinu sem var í sviðsljósinu í byrjun faraldursins auk þess sem sýnt er frá aðstæðum á gjörgæslu- og Covid-göngudeild Landspítala.

„Við byggjum þessa þætti á persónulegum sögum fólks sem eru mjög sterkar. Þær eru svolítið límið í þessari þáttaröð. Hins vegar er það atburðarásin, eins og hægt er að segja frá henni í sjónvarpi,“ segir hann og bætir við að enn sé verið að vinna efnið.

Mörg þúsund klukkutímar af efni

Þegar stiklan kom út hefði framleiðendur sennilega ekki órað fyrir því að ástandið yrði eins og raun ber vitni í lok ársins 2021 en Jóhannes segir þrátt fyrir þetta að búið sé að ákveða endapunkt þáttanna.

„Við erum hættir að mynda daglega, eins og við höfum verið að gera. Við erum komnir með endapunkt í þáttunum. Svo er þetta ennþá að gerast og sú saga varðveitist náttúrlega í fjölmiðlum,“ segir Jóhannes. Eru þeir þá hættir að mynda?

„Við dettum inn kannski við og við og erum að mynda pínkulítið. Ef það er eitthvað sem við viljum eiga þá er það það sem gerist í byrjun. Við mynduðum mjög mikið í eitt og hálft ár og þá náðum við efni en það sem er að gerast núna er endurtekið efni,“ segir Jóhannes enda sé komin þjálfun og reynsla í fólk í framvarðasveitinni.

Tökudagar þáttanna eru orðnir 375 eins og áður var getið: „Ég veit ekki um þáttaröð með 375 tökudögum og þeir eiga eftir að verða fleiri, út af viðtölum og fleiru. Ég veit ekki einu sinni hversu margir klukkutímar þetta eru af efni, ég myndi segja fleiri þúsund frekar en fleiri hundruð,“ segir Jóhannes og því ljóst að um ærið verkefni er að ræða.