Verðlaun Kristín Þórhallsdóttir með verðlaunapeningana í gær.
Verðlaun Kristín Þórhallsdóttir með verðlaunapeningana í gær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kraftlyftingar Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.

Kraftlyftingar

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Þetta var nánast algjör toppdagur,“ sagði kraftlyftingakonan Kristín Þórhallsdóttir í samtali við Morgunblaðið eftir að hún tryggði sér Evrópumeistaratitilinn í þríþraut í -84 kg flokki í klassískum kraftlyftingum í Västerås í Svíþjóð í gær. Kristín setti tvö Evrópumót í leiðinni og fjögur Íslandsmet, en hún er fyrsti Íslendingurinn til að fagna Evrópumeistaratitli í þríþraut.

Hún byrjaði á að lyfta þyngst 220 kg í hnébeygju, sem er nýtt Evrópumet. Í bekkpressu lyfti hún 115 kg, sem er bæting á hennar eigin Íslandsmeti. Loks lyfti hún 225 kg í réttstöðulyftu, og bætti við þriðja Íslandsmetinu í leiðinni. Kristín lyfti því samanlagt 560 kg, sem er nýtt Evrópumet í samanlögðu.

Náði loks Evrópumetinu

„Markmið númer eitt var að vinna flokkinn. Ég var efst á stigum fyrir mótið og markmiðið var að halda því og verða Evrópumeistari. Ég var í baráttunni um að setja Evrópumet á HM fyrir tveimur mánuðum. Við vorum tvær sem tókum 217,5 kg í hnébeygju en hin tók það á undan og fékk það skráð sem Evrópumet, en ekki ég. Markmiðið var að taka það met og mér tókst það þegar ég lyfti 220 kg,“ útskýrði Kristín.

Hún hefur verið að glíma við meiðsli í öxl síðustu vikur, en það var ekki að sjá hjá Evrópumeistaranum. „Ég gerði mér því ekki miklar væntingar í bekkpressunni. Mér tókst samt sem áður að bæta mig og lyfta 115 kg, sem er persónuleg bæting og Íslandsmet. Í annarri tilraun í réttstöðulyftu tók ég 225 kg, sem er persónuleg bæting og annað Íslandsmet, og með því var ég komin með Evrópumetið í samanlögðu. Ég reyndi svo við 230,5 í réttstöðulyftu, sem er Evrópumet, en það var því miður eina lyftan sem fór ekki upp í dag. Hún fór aðeins af stað en ég hafði hana ekki. Ég veit ég á hana inni og tek hana næst. Ég náði samt sem áður átta af níu lyftum gildum.“

Nýtti reynsluna frá HM

Heimsmeistaramótið í októberbyrjun var fyrsta stórmót Kristínar. Hún viðurkennir að það hafi verið auðveldara að keppa á Evrópumóti eftir reynsluna á HM.

„Ég var með aðeins háleitari markmið fyrir HM, sem var mitt fyrsta alþjóðlega mót. Það var smá stress sem fylgdi því að keppa á fyrsta alþjóðlega mótinu, þar sem allt er svo stórt. Ég náði ekki alveg mínu, sem er eðlilegt þegar maður er að fikra sig áfram á sínu fyrsta stórmóti. Markmiðið á EM var að ná út því sem ég hafði vonast til að ná á HM. Ég fór langleiðina með það. Það var allt miklu auðveldara núna. Ég kom með þriðja besta árangurinn inn á HM og það var mjög taugatrekkjandi að fara á mitt fyrsta stórmót og vera stiguð svona ofarlega fyrir mótið. Mér tókst samt að ná bronsinu á HM. Ég fann að ég var mun afslappaðri fyrir þetta mót þegar skrekkurinn var farinn. Mér leið mjög vel, var sjálfsörugg og þetta var miklu jákvæðari upplifun. Manni finnst maður vera hokinn af reynslu eftir eitt heimsmeistaramót,“ sagði Kristín hlæjandi.

Kristín er 37 ára og starfar sem dýralæknir í Borgarfirði en hún hefur aðeins æft íþróttina af krafti í tvö ár. Hún hefur því náð gríðarlega góðum árangri á skömmum tíma og komið sjálfri sér á óvart í leiðinni. „Þetta hefur komið mér rosalega á óvart. Ég byrjaði að æfa þetta til að fá líkamsrækt og bæta andlega líðan en svo sást það mjög fljótt að ég átti mikið erindi í íþróttina og hef rokið upp í bætingum. Það hefur gerst mjög hratt og kannski hraðar en er venjulegt að sjá. Líkami minn virðist taka mjög vel við því að æfa þessa íþrótt. Það er ekki sjálfgefið að byrja í nýrri íþrótt 35 ára gamall og ná toppnum.“

Ætlar sér stóra hluti á nýju ári

Kristín fær stutt jólafrí áður en hún fer að undirbúa sig fyrir næsta tímabil. Hún setur stefnuna á Íslands- og heimsmeistaramót á nýju ári. „Nú er ég orðin 37 ára en á meðan vel gengur og ég hef gaman af þessu mun ég keppa áfram. Ég fékk boð um að keppa á Reykjavíkurleikunum í janúar en ég ákvað að afþakka að þessu sinni þar sem það er búið að vera mjög stutt á milli móta hjá mér. Núna tekur við smáfrí og síðan uppbyggingartímabil. Eftir það stefni ég á að keppa á Íslandsmeistaramótinu í mars og svo er næsta HM í júní. Það er því hálft ár í næsta stórmót,“ sagði Kristín.