Petra Jónsdóttir fæddist 25. mars 1931. Hún lést 7. nóvember 2021. Útför Petru fór fram 22. nóvember 2021.
Í dag kveðjum við Petru frænku okkar og látum hugann reika um góðar stundir fyrst og fremst á Suðurgötu 37 á Siglufirði. Þar áttum við systkinabörnin, sem vorum fjölmörg og á öllum aldri, afa- og ömmuhús. Og þar var Petra, sem tók alltaf vel á móti og mátti ekkert aumt sjá. Hún var stoð og stytta foreldra sinna á þessum árum. Hún þreyttist ekki á því að segja hvað við værum flott og fín. Á vetrum í siglfirskum skafrenningi var húsið sannkallað sæluhús. Þar var maður klæddur úr og fötin hengd upp til þerris, og oft var spjallað yfir heitu kakói og vínarbrauði. Alltaf hélt ég að maður væri í sérstöku uppáhaldi hjá þeim afa, ömmu og Petru. Seinna kom í ljós að þessa tilfinningu höfðu hin barnabörnin líka.
Eftir að afi og amma voru dáin fór Petra suður og nokkru síðar kynntist hún Ragnari sínum. Það var happafengur fyrir þau bæði. Ragnar var fjölfróður hesta- og sögumaður og lét gamminn geisa. Þau Petra fóru víða um landið í hestaferðum. Petra kunni reyndar best við sig með trússinu í jeppanum. Þessar ferðir voru hennar sælustundir og oft sagði hún frá þeim. Einnig var farið víða á Lödunni góðu um landið og Ragnar alltaf duglegur að taka myndir. Heimsóknir til þeirra á Einigrund 7 voru góðar og minnisstæðar og þar fann maður vel hve kærleiksríkt samband þeirra var. Eftir að Ragnar lést fór að halla undan fæti hjá Petru og lífsneistinn fór þverrandi. Petra frænka mín var hlý og heilsteypt og skilur eftir sig góðar minningar.
Þórhallur Jóhannesson.