80 ára Rúrí, eins og hún er alltaf kölluð, ólst upp í miðbæ Reykjavíkur. „Ég var sex sumur á Hólmavík hjá guðforeldrum mínum, Sigurði Ólasyni lækni og Herdísi Elínu Steingrímsdóttur konu hans.
80 ára Rúrí, eins og hún er alltaf kölluð, ólst upp í miðbæ Reykjavíkur. „Ég var sex sumur á Hólmavík hjá guðforeldrum mínum, Sigurði Ólasyni lækni og Herdísi Elínu Steingrímsdóttur konu hans. Síðar dvaldi ég oft á Reykjum á Reykjaströnd í Skagafirði.“

Rúrí fór 17 ára til Bandaríkjanna, en hún hafði unnið samkeppni um háskólastyrk við háskóla í Kalamazoo í Michigan. „Ég var eitt ár í Kalamazoo College en hélt heim eftir 15 mánaða dvöl og lauk svo stúdentsprófi með árgangi mínum í MR.“

Rúrí nam ensku og latínu við HÍ, en síðar hélt hún til Kanada og lauk meistaraprófi í klínískri sálfræði og síðar doktorsprófi í taugasálfræði.Hún starfaði við geðdeild og taugadeild á Landspítalanum og var einnig með stofu, en hafði einnig unnið sem sálfræðingur í Kanada.

Helstu áhugamál Rúríar eru tónlist og lestur. „Ég hef verið hrifin af klassískri tónlist frá því ég var fjögurra ára og lærði snemma á píanó. Ég hef lagt mig eftir að læra tungumál og get því lesið á nokkrum tungumálum.“

Fjölskylda Fyrri eiginmaður Rúríar var Gylfi Baldursson, f. 1937, d. 2010, heyrnar- og talmeinafræðingur. Börn þeirra: Arngunnur Ýr, f. 1962, Bryndís Halla, f. 1964, Gunnhildur Sif, f. 1967, d. 1987, Baldur, f. 1969, og Yrsa Þöll, f. 1982. Seinni eiginmaður Rúríar var Grétar Guðmundsson, f. 1944, d. 2020, taugalæknir. Foreldrar Rúríar voru Vilborg Guðjónsdóttir, f. 1909, d. 1982, skrifstofumær og afgreiðslukona, og Jón Níels Jóhannsson, f. 1909, d. 1975, bifreiðastjóri og lagermaður.