Sigríður Guðný Kristjánsdóttir fæddist 12. desember 1934. Hún lést 15. mars 2021.
Sigríður var jarðsungin 27. mars 2021.
Mig langar að minnast elskulegrar móður minnar sem hefði átt 87 ára afmæli í gær, 12. des. En hún lést 15. mars s.l. Ég saknar hennar alla daga. Sakna þess að geta ekki hringt í hana og spurt hana um eitt og annað, sakna þess að geta ekki sagt henni frá einhverju sem ég hef verið að gera og núna sakna ég þess óskaplega mikið að geta ekki fengið að hafa hana hjá okkur um jólin eins og hún gerði svo oft. Ég minnist hennar með þakklæti í huga fyrir allt sem hún kenndi mér og hjálpaði mér með. Þakklæti fyrir að taka alltaf vel á móti mér og fjölskyldu minni á hverju sumri. Ég var alltaf frekar náin mömmu og þrátt fyrir að hafa nánast flutt að heiman um 16 ára aldur og búið á hinu landshorninu þá fór ég alltaf „heim“ til mömmu og pabba. Þess á milli urðu oft löng símtöl að duga. 12. desember var líka brúðkaupsdagur mömmu og pabba og náðu þau að fagna 50 ára brúðkaupsafmæli, 2007, skömmu áður en pabbi féll frá. Ég trúi því að pabbi hafi nú tekið vel á móti mömmu í Sumarlandinu og að þeim liði vel í annarri tilvist.
Ég ylja mér við góðar minningar um samverustundir sem hefðu mátt vera svo mikið fleiri þegar maður hugsar til baka. Mamma var góð og yndisleg móðir og er ég afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hana þetta lengi.
Hvíl í friði elsku mamma.
Þín dóttir
Halldóra.