Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Verkhönnun á síðasta áfanga Arnarnesvegar er að hefjast hjá Vegagerðinni og reiknað er með því að Kópavogsbær og Reykjavíkurborg afgreiði tillögur að nýju deiliskipulagi til kynningar í næstu viku.
Kynningin á deiliskipulagstillögunni tekur sex vikur og gefst íbúum kostur á að gera athugasemdir. Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri höfuðborgarsvæðisins hjá Vegagerðinni, reiknar með að verkhönnun ljúki í febrúar. Framkvæmdin geti farið í útboð um leið og deiliskipulag hefur verið afgreitt.
Hætt við mislæg gatnamót
Verkfræðistofan Efla vann tillögur að deiliskipulagi fyrir Kópavogsbæ og Reykjavíkurborg og lagði fram í síðasta mánuði. Þær eru nú til umfjöllunar hjá nefndum sveitarfélaganna.Þriðji áfangi Arnarnesvegar er um 1,3 km langur og liggur frá enda núverandi vegar við Rjúpnaveg og inn á Breiðholtsbraut. Þar verður vegurinn lagður á brú yfir Breiðholtsbrautina og inn á brautina aftur á ljósastýrðum gatnamótum. Fallið var frá fyrri hugmyndum um full mislæg gatnamót. Á veginum verða tvö ný hringtorg, annars vegar gagnvart Rjúpnavegi og hins vegar við Vatnsendaveg.
Samhliða er gert ráð fyrir stofnstíg, aðskildum hjóla- og göngustíg, frá Rjúpnavegi og að Elliðaárdal ásamt tengistígum inn í íbúðarhverfin sem og meðfram Breiðholtsbrautinni og undir fyrirhugaðri brú. Jafnframt er gert ráð fyrir göngubrú yfir veginn á völdum stað og tvennum undirgöngum.