[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson var í aðalhlutverki hjá Nimes í fyrrakvöld þegar liðið vann Nancy 2:1 í frönsku B-deildinni í knattspyrnu. Elías skoraði fyrra mark Nimes og lagði upp það seinna en honum var skipt af velli á 84. mínútu.

*Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson var í aðalhlutverki hjá Nimes í fyrrakvöld þegar liðið vann Nancy 2:1 í frönsku B-deildinni í knattspyrnu. Elías skoraði fyrra mark Nimes og lagði upp það seinna en honum var skipt af velli á 84. mínútu. Lið hans, sem féll úr efstu deild í vor, er um miðja B-deildina. Elías skoraði þarna sitt þriðja mark fyrir liðið í deildinni á tímabilinu.

*Hollendingurinn Max Verstappen á Red Bull varð í gær heimsmeistari í Formúlu 1 í fyrsta skipti eftir ótrúlega baráttu við sjöfalda heimsmeistarann Lewis Hamilton á Mercedes í Abú Dabí-kappakstrinum, lokamóti tímabilsins. Verstappen hóf kappaksturinn fremstur eftir sigur í tímatökunni á laugardag en Hamilton var ekki lengi að taka fram úr Hollendingnum strax í upphafi. Hélt hann forystunni fram að síðasta hring, þegar Verstappen tók fram úr og tryggði sér sigurinn.

Lið Mercedes lagði fram tvenn mótmæli en þeim var hvorum tveggja vísað frá og Verstappen var þar með staðfestur heimsmeistari fjórum tímum eftir að kappakstrinum lauk í gær.

*Kvennalið Þróttar úr Reykjavík í knattspyrnu fékk í gær liðsauka fyrir næsta tímabil. Bandaríski framherjinn Danielle Marcano samdi þá við Þrótt en hún lék með HK í 1. deildinni á síðasta tímabili og skoraði þar sex mörk í tólf leikjum.

*Enski knattspyrnumaðurinn Luke Rae , sem hefur leikið með Vestra og Tindastóli undanfarin tvö ár, hefur gert tveggja ára samning við fyrstudeildarfélag Gróttu.

* Guðjón Valur Sigurðsson , þjálfari toppliðsins Gummersbach í þýsku B-deildinni í handknattleik, hefur fengið hornamanninn Óðin Þór Ríkharðsson lánaðan frá KA til áramóta. Handbolti.is greindi frá þessu. Óðinn, sem er næstmarkahæsti leikmaður Olísdeildarinnar í vetur, missir af einum leik með KA en getur spilað þrjá leiki með Gummersbach.

* Sigrún Árnadóttir skoraði þrennu fyrir Fjölni í gær þegar liðið vann Skautafélag Akureyrar 5:3 á Íslandsmóti kvenna í íshokkíi. Fjölniskonur fylgdu eftir 4:1-sigri í leik liðanna á sama stað á laugardaginnn og Sigrún skoraði einnig eitt markanna í þeim leik. Kolbrún Garðarsdóttir skoraði líka fyrir Fjölni í báðum leikjum. Grafarvogsliðið er nú með 15 stig, SA 12 en SR ekkert.

*Á Íslandsmóti karla í íshokkíi vann SA dramatískan sigur á SR í Laugardalnum á laugardaginn, 4:3, þar sem Hafþór Sigrúnarson skoraði sigurmark SA, sitt annað mark í leiknum, á lokamínútunni. Þá hafði SR unnið upp 3:0-forskot sem SA náði í fyrsta leikhluta. SA er nú með 18 stig og SR 17 í Hertz-deild karla en Fjölnir er með þrjú stig í neðsta sætinu.

* Teitur Örn Einarsson landsliðsmaður í handknattleik hefur skrifað undir samning við þýska félagið Flensburg til ársins 2024. Teitur kom til Flensburg frá Kristianstad á skammtímasamningi í október og hefur blómstrað með þýska liðinu þar sem hann hefur gert 52 mörk í 13 leikjum. Teitur hélt upp á samninginn með því að skora fjögur mörk í stórsigri Flensburg á Leipzig í gær, 31:21.

* Bjarki Már Elísson er næstmarkahæstur í þýsku 1. deildinni í handbolta en hann skoraði níu mörk fyrir Lemgo í gær þegar liðið vann Göppingen örugglega, 34:26. Bjarki hefur skorað 95 mörk í 14 leikjum en Niclas Ekberg er markahæstur með 98 mörk í 15 leikjum fyrir Kiel. Janus Daði Smárason skoraði þrjú mörk fyrir Göppingen í leiknum.

Viggó Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Stuttgart og Andri Már Rúnarsson tvö en lið þeirra steinlá þó á heimavelli gegn Hannover-Burgdorf, 22:34.

* Kristján Örn Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik fór á kostum í gærkvöld þegar lið hans Aix vann St. Raphaël á útivelli, 31:24, í frönsku 1. deildinni. Kristján var sérstaklega í miklum ham í fyrri hálfleik en hann skoraði níu mörk úr tólf skotum í leiknum. París SG er með 24 stig á toppnum, Nantes er með 21, Aix 19 og St. Raphaël 14 stig í fjórða sætinu.

*Nokkrir leikmenn og starfsmenn enska knattspyrnuliðsins Manchester United hafa greinst með kórónuveiruna. Skimanir sem gerðar voru eftir sigur liðsins gegn Norwich, 1:0, á laugardag leiddu til þessarar niðurstöðu og fyrir vikið var hefðbundinni æfingu liðsins í gær aflýst. Óvissa er með leik United gegn Brentford í úrvalsdeildinni sem fram á að fara í London annað kvöld.