Bestir Alfons Sampsted er norskur meistari annað árið í röð.
Bestir Alfons Sampsted er norskur meistari annað árið í röð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Alfons Sampsted og Guðmundur Þórarinsson, landsliðsmenn í knattspyrnu, fögnuðu um helgina meistaratitlum í Noregi og Bandaríkjunum.

Alfons Sampsted og Guðmundur Þórarinsson, landsliðsmenn í knattspyrnu, fögnuðu um helgina meistaratitlum í Noregi og Bandaríkjunum.

Alfons og félagar í Bodö/Glimt þurftu stig gegn botnliði Mjöndalen á útivelli í lokaumferðinni í Noregi í gær til að verða meistarar annað árið í röð. Þeir gerðu gott betur en það, voru komnir í 2:0 eftir aðeins fjórar mínútur og innsigluðu sigurinn og titilinn með þriðja markinu í seinni hálfleik.

Alfons lék allan leikinn með Bodö/Glimt og spilaði 29 af 30 leikjum liðsins í deildinni, alveg eins og á árinu 2020 þegar liðið varð meistari í fyrsta skipti.

Guðmundur lék sem vinstri bakvörður með New York City sem lagði Portland Timbers í úrslitaleik MLS-deildarinnar í Bandaríkjunum, sem fram fór í Portland í fyrrakvöld. Honum var skipt af velli undir lok uppbótartíma þegar New York var yfir, 1:0. Portland jafnaði, 1:1, með síðustu spyrnu leiksins og ekkert mark var skorað í framlengingu. New York City vann vítakeppnina 4:2, varð meistari í fyrsta skipti, og Guðmundur varð fyrstur Íslendinga til að vinna meistaratitilinn í karlaflokki í Bandaríkjunum. Dagný Brynjarsdóttir vann hann í kvennaflokki árið 2017 með Portland Thorns.