Nýmæli Tæknin hefur gjörbreytt öllu – og hér í Fjallabyggð hefur nýsköpun jafnframt verið áhersluatriði í atvinnumálum, segir Linda Lea.
Nýmæli Tæknin hefur gjörbreytt öllu – og hér í Fjallabyggð hefur nýsköpun jafnframt verið áhersluatriði í atvinnumálum, segir Linda Lea. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Þegar fólk ætlar að róa á ný mið og flytja á nýjan stað vakna eðlilega margar spurningar um meðal annars aðstæður og samfélagið. Auðvitað er allur gangur á því hvernig mismunandi upplýsingar fást.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þegar fólk ætlar að róa á ný mið og flytja á nýjan stað vakna eðlilega margar spurningar um meðal annars aðstæður og samfélagið. Auðvitað er allur gangur á því hvernig mismunandi upplýsingar fást. Að minnsta kosti er mikilvægt að einhver sé til svara og því kalli erum við að svara nú,“ segir Linda Lea Bogadóttir, flutningsfulltrúi Fjallabyggðar.

Titillinn vekur athygli, en þetta er nýtt starf hjá sveitarfélaginu sem stofnað var til nú fyrr í mánuðinum.

Alltaf bætast nýir hópar í skörðin

Fjallabyggð er fyrsta og eina sveitarfélagið á landinu sem hefur flutningsfulltrúa á sínum snærum, þar sem fólk er leitt í gegnum flutninga í ný heimkynni. Getur á einn stað sent erindi og fyrirspurnir viðvíkjandi flutningunum og fengið svör svo fljótt sem verða má. Ætla verður að þetta sé nauðsynleg þjónusta.

Fjallabyggð er mynduð af tveimur byggðakjörnum; annars vegar Ólafsfirði þar sem um 780 manns búa og Siglufirði þar sem íbúarnir eru um 1.200. Samanlagður fjöldi íbúa í sveitarfélaginu hefur síðustu árin haldist nokkuð stöðugur eða um 2.000 manns. Alltaf og eðlilega er þó nokkur hreyfing. Fólk kemur og fer og „alltaf bætast nýir hópar í skörðin“ eins og skáldið orti. Og þeir sem nýir koma eru einmitt hópurinn sem flutningsfulltrúanum er ætlað að sinna.

Hagstætt húsnæðisverð

„Þegar fólk stefnir á flutninga á nýjan stað þarf finna sér húsnæði. Í Fjallabyggð er ýmiss konar íbúðarhúsnæði í boði, af öllum stærðum og gerðum, til leigu og sölu, svo allir ættu að geta fundið sér húsnæði við hæfi. Einnig er gott framboð á lóðum fyrir þá sem hafa hug á að byggja sitt eigið. Almennt er húsnæðisverð hér hagstætt,“ segir Linda sem einnig er markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar. Nánari kynning á þjónustu flutningsfulltrúa er að finna á nýjum upplýsingavef Fjallabyggðar fagnar.is .

„Fyrir utan atvinnu- og húsnæðismál er fólk líka með spurningar um skólamálin, möguleika til nýsköpunar og svo mál tengd frítíma, afþreyingu og útivist,“ segir Linda. „Á nýjum stað er mikilvægt að komast sem fyrst inn í samfélagið með virkri þátttöku í félagsstarfi. Þá búum við svo vel hér í Fjallabyggð, því mannlíf bæjarins er fjölbreytt og félags- og menningarstarf blómlegt. Hér er öflugt tónlistarlíf, íþróttastarf fyrir alla aldurshópa, tveir golfvellir, sundlaugar, golfvellir og skíðasvæði svo eitthvað sé nefnt. Þetta er fjölskylduvænt samfélag.“

Fjarvinnsla færist í vöxt

Á seinni árum hefur verið talsvert um að utanbæjarfólk festi kaup á húsnæði og noti sem sumarhús. Sérstaklega á þetta við á Siglufirði, sem á velmektartíma síldaráranna var vel hýst stórborg. Á seinni árum hafa mörg hús í bænum verið endurgerð sem prýði þykir að.

„Alls eru þessi sumarhús í bæjarfélaginu um 160 talsins, flest á Siglufirði. Fólk er mikið í þessum húsum sínum yfir sumarið – og raunar er talsvert um að fólk dvelji hér yfir sumarið við ýmiskonar störf. Þar get ég til dæmis nefnt ungt listafólk í ýmsum greinum og einnig er eitthvað um það að fólk komi hingað tímabundið að vinna og setjist svo að til lengri tíma. Svo höfum við öll lært eitt gott af kórónuveirunni, það er að vinna að heiman. Þá hafa möguleikar til fjarvinnu fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu og víðar aukist stórlega og við höfum orðið vör við það að fólk komi hingað og vinni héðan um lengri eða skemmri tíma.“

Viljum skapandi fólk

En hverjir eru atvinnumöguleikarnir í Fjallabyggð að öðru leyti? Jú, þar er vinnu að hafa fyrir þá sem sækjast eftir því, segir Linda Lea en tekur fram að eðlilega sé breidd og úrval starfa ekki hið sama og á fjölmennari stöðum.

„En hér er pláss fyrir sérmenntað fólk á flestum sviðum og hingað viljum við fá skapandi fólk líka. Atvinnumöguleikar geta verið óþrjótandi; hér er fjölbreytt starfsemi í hefðbundnum greinum, líf- og hátæknifyrirtæki og vaxtarbroddur í ferðaþjónustu og afþreyingu. Fjölmörg störf á almenna vinnumarkaðnum eru þó aldrei auglýst laus til umsóknar. Annars er atvinnulífið í örri þróun og margir einfaldlega skapa sér vinnu í því sem kannski var ekki fyrirséð. Tæknin hefur gjörbreytt öllu og hér í Fjallabyggð hefur nýsköpun jafnframt verið áhersluatriði í atvinnumálum.“

Hver er hún?

• Linda Lea Bogadóttir fæddist árið 1968. Viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og með meistaragráðu í menningarstjórnun úr Háskólanum á Bifröst. Var fyrr á árum sérfræðingur hjá Landsneti hf. á sviði viðskiptatengsla, markaðsmála og kerfisstjórnar.

• Linda Lea á ættir að rekja til Siglufjarðar en þangað flutti hún árið 2016 og gerðist markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar. Hún býr nyrðra með tíu ára dóttur sinni, en fyrir sunnan á hún fjögur uppkomin börn og fimm barnabörn.