Listamaðurinn Fjölnir Geir Bragason, af mörgum þekktur sem Fjölnir tattú, er látinn, 56 ára að aldri.
Fjölnir fæddist í Reykjavík 5. febrúar 1965, sonur Braga Ásgeirssonar, myndlistarmanns og myndlistarrýnis Morgunblaðsins, og Kolbrúnar Benediktsdóttur leikskólakennara.
Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1990 og lagði stund á nám við höggmyndalist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, ásamt því að mála, yrkja og sinna fleiri listgreinum, en sneri svo við blaðinu og fór að fást við húðflúr. Hann útskrifaðist svo úr skólanum árið 2000, þar sem lokaritgerðin fjallaði um húðflúr.
Fjölnir hafði fengist við að húðflúra allt frá árinu 1995, lengst af á JP Tattoo og svo síðar á Íslenzku húðflúrstofunni, og gat sér gott orð sem hugmyndaríkur og vandvirkur flúrari, sem átti verulegan þátt í að ryðja þeirri listgrein braut hér á landi og afla húðflúri mun almennari vinsælda en þar til hafði tíðkast.
Fjölnir var glæsilegur maður á velli, sem vakti athygli hvar sem hann fór; um margt óvenjulegur í fasi og útliti, áberandi í samkvæmislífi borgarinnar á yngri árum, vinsæll og vinmargur. Hann var fjölfróður og skemmtilegur viðræðu um nánast hvað sem var, íhugull en skjótur til svars og átti auðvelt með að tvinna saman gaman og alvöru.
Fjölnir tók þátt í stofnun FO Tatt Fest-hátíðarinnar í Færeyjum árið 2012 ásamt Páli Sch. Thorsteinssyni, en í sumar hélt hann tattú-blót á Langaholti á Snæfellsnesi og fyrsta IS Tatt Fest-hátíðin var haldin í Iðnó nú í október.
Nýlega lét hann til sín taka ásamt fleirum með áskorun til borgaryfirvalda um rannsókn á starfsemi vöggustofa í Reykjavík á árum áður, en hann hafði í æsku verið vistaður á einni slíkri um hríð.
Fjölnir lætur eftir sig þrjá syni: Atla Frey, f. 1989, Fáfni, f. 1995, og Fenri Flóka, f. 2013, og þrjú barnabörn: Fjölni Myrkva, Ísabellu Dimmu og Indíönu Nótt Atlabörn.