Byrði Japanskt efnahagslíf hefur farið sæmilega út úr faraldrinum.
Byrði Japanskt efnahagslíf hefur farið sæmilega út úr faraldrinum. — AFP
Meirihluti stjórnar seðlabanka Japans hallast að því að draga úr kaupum á skuldabréfum fyrirtækja og draga einnig úr stuðningi við smærri japönsk fyrirtæki. Þetta hefur Reuters eftir fjórum ónafngreindum heimildarmönnum sem þekkja vel til málsins.

Meirihluti stjórnar seðlabanka Japans hallast að því að draga úr kaupum á skuldabréfum fyrirtækja og draga einnig úr stuðningi við smærri japönsk fyrirtæki. Þetta hefur Reuters eftir fjórum ónafngreindum heimildarmönnum sem þekkja vel til málsins. Um er að ræða skammtímaúrræði sem seðlabankinn hefur beitt til að styðja við japanskt atvinnulíf í kórónuveirufaraldrinum.

Þessi inngrip seðlabankans eiga að renna sitt skeið á enda í mars á næsta ári en óvíst þótti hvort stuðningsverkefnið yrði framlengt. Segja heimildarmenn að bankinn muni ekki hvika frá gildandi lágvaxtastefnu en að fjármögnunarumhverfi japanskra fyrirtækja hafi farið batnandi og því ekki ástæða fyrir seðlabankann að styðja áfram með sama hætti við þennan hluta hagkerfisins. Stýrivextir langtímalána í Japan eru í dag um 0% og stýrivextir skammtímalána -0,1%.

Hugsanlegt þykir að stuðningi við smærri fyrirtæki verið haldið áfram, í einhverri mynd, þar eð japanskir neytendur halda enn fast um pyngjuna.

Heimildarmenn Reuters segja þó að framhald kunni að verða á örvunaraðgerðunum ef stjórn seðlabankans þykir líklegt að ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar valdi óskunda í alþjóðahagkerfinu eða verði til þess að japönsk stjórnvöld grípi til harkalegra smitvarnaaðgerða. ai@mbl.is