Ólafur Hreinn Sigurjónsson fæddist 30. maí 1950 á Hvolsvelli. Hann lést á Droplaugarstöðum 25. nóvember 2021. Útför hans fór fram 2. desember 2021.

Við vorum fjórir synir frumbýlinga á Hvolsvelli, Ágúst Ingi, Ólafur Hreinn, Sigurjón Garðar, undirritaður og tvær stelpur úr sveitinni, þær Steinunn Anna á Brekkum og Hólmfríður á Núpi, sem hófum saman nám við Hvolsskóla haustið 1957. Næsta vetur bættist Matthías sonur skólastjórahjónanna í hópinn, en hann datt af hestbaki í réttunum um haustið og dvaldi fyrsta veturinn hjá afa sínum og ömmu í Kópavogi. Þessi kjarni hélst saman að mestu út barnaskólann og við strákarnir fermdumst saman 1963 eftir vetrardvöl í Skógaskóla. Fermingarundirbúningi hafði þó ekki verið sinnt sem skyldi svo við lá að séra Arngrímur í Odda neitaði að ferma okkur. Við sem vorum í Skógum skrópuðum nefnilega í fermingarfræðslunni hjá séra Sigurði í Holti. Hefðum við ekki verið síðasti hópurinn sem séra Arngrímur fermdi frá Stórólfshvolskirkju hefði hann líklega frestað fermingunni. Upp úr fermingarfræðslu séra Arngríms stendur áhersla hans á handþvott, nokkuð sem kemur sér vel nú í baráttunni við veiruna skæðu. Í sex vetur gengum við strákarnir um 1 km leið í skólann okkar á móti austanáttinni og eftir þrjú ár í Skógaskóla fórum við Óli í Menntaskólann að Laugarvatni og vorum þar bekkjarfélagar næstu fjögur ár. Um jól og páska skiptust feður okkar á að skutla okkur til og frá skóla, en á þeim árum var þetta talsvert ferðalag frá Hvolsvelli. Eftirminnilegasta ferðin er þó þegar farið var til baka úr einu fríinu á Land Rover-jeppa með Þorvaldi Erni Árnasyni frá Álfhólum. Þegar stutt var eftir að Laugarvatni sáum við allt í einu hvar annað afturhjólið tók fram úr okkur og bíllinn haltraði. Þrátt fyrir þetta tókst okkur nú samt að ljúka ferðalaginu og mættum í skólann þó við höfum nú líklega fengið „S“ í kladdann!

Vorið þegar við Óli tókum bílpróf þurftum við læknisvottorð. Óli fór inn á undan en ég var orðinn svolítið nærsýnn og spurði um stafina sem spurt var um. Svar Óla og minni dugði til að ég fékk vottorð um fulla sjón!

Eftir menntaskóla hóf Óli nám í jarðfræði við HÍ en ég tók mér frí í eitt ár. Haustið 1971, þegar kólna fór á vinnusvæðinu við Þórisvatn, ákvað ég hins vegar að skrá mig í jarðfræði, enda líkaði Óla og fleiri félögum úr ML-námið vel, enda komum við með góðan grunn í náttúrufræði frá Alfreð Árnasyni, okkar ágæta kennara frá Stóru-Mörk. Ég fékk í framhaldinu húsaskjól hjá Óla í kjallaraíbúðinni við Granaskjól, eða þar til Ögga flutti til hans með dóttur þeirra þegar líða tók að vori.

Eftir að Óli fluttist til Eyja lengdist í tengslaþræðinum, en þegar eftir því var leitað var hann svo vænn að hýsa okkur foreldra KR-stráka á Shellmóti og leyfði okkur að gista í skólanum sem hann stýrði. Síðast bar fundum okkar saman þegar ég kannaði grjótnám fyrir hafnargerð í Eyjum vorið 2008 og við áttum stuttan fund á skrifstofu hans í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum.

Að leiðarlokum er efst í huga þakklæti fyrir einstaklega þægilega samleið með gömlum vini, skólabróður og félaga.

Öggu, börnum þeirra, fjölskyldu og systkinum Óla votta ég mína dýpstu samúð.

Ómar Bjarki

Smárason.