Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Siðanefnd Háskóla Íslands kannar í dag hvort mál Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra og fyrrverandi dósents við skólann, verði tekið fyrir efnislega hjá nefndinni.
Mál Ásgeirs lýtur að meintum ritstuldi en rithöfundurinn Bergsveinn Birgisson hefur sakað hann um að hafa byggt á bók sinni, Leitin að svarta víkingnum , í nýútkominni bók Ásgeirs, Eyjan hans Ingólfs , án þess að geta heimilda.
Rektor tekur ákvörðun
Bergsveinn vísaði málinu til siðanefndar háskólans en Skúli Skúlason, formaður nefndarinnar, segir alls óvíst að málið hljóti efnislega umfjöllun hjá nefndinni. Fyrst þurfi hún að leggja mat á það hvort Ásgeir heyri enn undir háskólann. Ásgeir starfaði við hagfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2004 og var þar deildarforseti frá árinu 2015. Hann tók við embætti seðlabankastjóra 20. ágúst 2019.
Ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að hún geti tekið málið til efnislegrar umfjöllunar mun hún rannsaka það og gefa málsaðilum kost á andmælum. Þá getur nefndin einnig leitað eftir sátt í málinu á milli málsaðila. Ef ekki næst sátt skilar nefndin niðurstöðu sinni til rektors Háskóla Íslands. Er það í hans höndum að taka afstöðu til niðurstöðunnar og grípa til viðeigandi ráðstafana.
Bergsveinn svarar Finnboga
Í viðtali við Morgunblaðið á laugardag sakaði rithöfundurinn Finnbogi Hermannsson Bergsvein um að hafa stolið orðalagi úr bók sinni. Á laugardagskvöld svaraði Bergsveinn þeim ásökunum Finnboga í grein á Vísi og sagði hann skorta frumlega hugsun. Hann sagðist einnig hafa svarað Finnboga hvað þetta varðar árið 2010 en að Finnbogi virtist hafa gleymt því. Forsaga málsins er sú að árið 2003 sendi Finnbogi frá sér bókina Einræður Steinólfs , sem var ævisaga Steinólfs Lárussonar, bónda í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd í Dölum, jafnhliða því að vera lýsing á ýmsum staðháttum þar um slóðir. Þykir Finnboga sem Bergsveinn hafi stolið orðalagi þaðan þegar hann skrifaði svo bók sína, Svar við bréfi Helgu .
Bergsveinn segist ekki hafa fengið orðin frá Finnboga heldur beint úr frásagnargleði Steinólfs, frænda síns, og að hann hafi getið þess í athugasemdum aftast í bókinni.
„Sá sem á umrædd orð var nefnilega gæddur nokkru sem Finnbogi Hermannsson hefur farið á mis við, en það er frumleg hugsun. Bera orðin sjálf því vitni af hvers rótum þau renna. Kröfu Finnboga um eignarrétt á orðum Steinólfs mætti helst líkja við það, að ef einhver sem tæki þátt í að gefa út ljóð Einars Benediktssonar myndi eigna sér ljóð Einars Benediktssonar.“
Bergsveinn vakti einnig athygli á því að Finnbogi hefði gefið út ævisöguna að afkomendum og frændfólki Steinólfs forspurðu og að hann tileinkaði sjálfum sér eignarréttinn.
Svar við bréfi Bergsveins
Í aðsendri grein á vef Vísis í gær svaraði Finnbogi svo ásökunum Bergsveins og sagði Steinólf sjálfan hafa beðið sig að rita ævisöguna árið 2002. Það hefði hann gert og bókin selst vel. Því hefði hann ákveðið að gefa hana út aftur árið 2019 og birti mynd því til sönnunar að hann einn ætti ekki höfundarrétt að bókinni heldur Steinólfur líka.