Staðan verður varla verri en svo að bæði forseti og varaforseti séu óhæfir

Í Bandaríkjunum er fjallað mjög opinskátt um þann veikleika sem er að finna í æðstu stjórn landsins, forsetanum, og svo þann vanda sem felst í því að varaforsetinn hafi ekki sýnt að hann geti tekið við hinu þýðingarmikla starfi.

Peggy Noonan hefur mikla og langa reynslu af bandarískum stjórnmálum og opinberri umræðu þar í landi. Hún var sérstakur aðstoðarmaður og ræðuskrifari þess forseta sem allir vilja nú bera sig saman við en fáir geta, Ronald Reagan, og hefur starfað í sjónvarpi, kennt sögu og fjölmiðlun í háskólum, ritað bækur og er nú meðal annars pistlahöfundur The Wall Street Journal.

Í nýjasta pistli hennar fjallar hún um varaforsetann, Kamölu Harris, og bendir á að jafn slæmar og tölur Bidens forseta séu í könnunum þá séu tölur varaforsetans enn verri. Látlausar neikvæðar fréttir um hana lýsi flótta starfsmanna og upplausnarástandi á skrifstofu hennar. Hún sé iðulega illa undirbúin, setji sig ekki inn í mál og hafi meiri áhuga á pólitískri hlið mála en innihaldi þeirra. Ekki batnar það þegar því er haldið fram að þegar hún var dómsmálaráðherra í Kaliforníu hafi ástandið þar verið svipað.

Yfirleitt þykir slík umræða um varaforsetann óþörf þó að sumir forveranna hafi fengið gusur og þótt óframbærilegir. En nú, eins og Noonan segir, er „forsetinn gamall og dómgreind hans umdeilanleg“. Þess vegna skipti miklu að varaforsetinn virðist ekki ráða við verkefnið og sé ekki fær um að taka við hinu verkefninu, sem meiri líkur standa þó til en oftast áður að verði hlutskipti hans.

Þessi staða er mikið áhyggjuefni eins og sjá má í þeirri opinskáu umræðu sem á sér stað um heilsufar forsetans og getu varaforsetans. Ef um smáríki væri að ræða væri þetta óþægilegt fyrir íbúana en fáa aðra. Þegar Bandaríkin eru annars vegar, forysturíki hins frjálsa heims, þá snertir þetta alla.