Hjörtur Einarsson fæddist í Reykjavík 20. september 1965. Hann lést af slysförum 10. nóvember 2021.
Hjörtur var yngstur af fjórum börnum hjónanna Helgu Láru Jónsdóttur, f. 13.3. 1940, og Einars Sigurðssonar, f. 2.12. 1934, d. 7.12. 2006. Systkini hans eru: Alexandra, f. 16.11. 1960, Jón Þór, f. 18.9. 1962, og Guðbjörg, f. 7.9. 1963.
Hjörtur gekk að eiga Hólmfríði Ósk Guðbjörnsdóttur, f. 13.9. 1966, og saman eignuðust þau dótturina Guðbjörgu, f. 16.9. 1986. Sambýlismaður Guðbjargar er Elvar Már Sigurgíslason, f. 9.10. 1979. Saman eiga þau nýfæddan dreng, f. 17.11. 2021, en börn hans eru Gabríel Már, f. 2.1. 2003, Óliver Már, f. 9.6. 2005, og Sóldís Birna, f. 1.4. 2011.
Hjörtur var í sambúð með Rakel Svövu Einarsdóttur, f. 21.3. 1975, og átti stjúpson, Einar Ágúst Sveinsson, f. 27.12. 2008.
Hjörtur bjó um skeið á Hvammstanga uns hann fluttist til Reykjavíkur. Hann varð áberandi innan líkamsræktarhreyfingarinnar, keppti á mörgum vaxtarræktarmótum og starfaði í World Class í Laugardal um tíu ára skeið.
Á kafla var hann við störf á Flórída en hin síðari misseri var hann starfsmaður Krísuvíkursamtakanna og starfaði hjá Gistiskýlinu Lindargötu fram að dánardegi.
Útför hans fór fram frá Laugarneskirkju 7. desember 2021.
Það hendir að við rekumst á sama fólkið á svipuðum tíma, á ákveðnum stað, oft í viku. Stundum daglega. Í sundi, í ræktinni, á kaffihúsum eða hvar sem er. Við kinkum kolli eða spjöllum og áður en við vitum af erum við farin að gera ráð fyrir því að hitta viðkomandi, jafnvel þótt við höfum ekki hugmynd um hvað hann eða hún heitir. Eða við hvað viðkomandi starfar. Það er aukaatriði af því það getur verið notalegt að vera hér og nú, eiga samskipti sem tilheyra augnablikinu eingöngu, hlusta og meðtaka.
Einn er sá kappi sem ég hef rekist á í ræktinni árum saman eða nánast frá því ég hóf að stunda líkamsrækt reglulega. Hann bar þess merki að vera sjóaður í bransanum, hafði ýmsa fjöruna sopið, reynslubolti, tók almennilega á því, gaf engan afslátt og var með rétta einbeitingu, þrautseigju og dugnað til að ná árangri. Alltaf kátur, yfirvegaður og gaf mikið af sér.
Mörgum árum eftir að ég kynntist kappanum, eða kynntist honum ekki, komst ég að því hvaða nafn hann bar. Og hann þekkti ekki mitt til að byrja með. Samskipti okkar hófust með léttum „skotum“ og fíflaskap en fljótlega áttuðum við okkur á því að við höfðum svipaða lífssýn og deildum áþekkum skoðunum. Hann bar hag þeirra fyrir brjósti sem minna máttu sín og starfaði á þeim vettvangi. Og hann minnti mig reglulega á að engir tveir einstaklingar væru eins og að við ættum að bera virðingu fyrir öllum.
Fyrirvaralaust var Hjörtur Einarsson horfinn úr lífi okkar. Hann lést af slysförum. Hver dagur er dýrmætur og samskipti okkar við aðra skipta máli. Við vitum aldrei hvenær kallið kemur. Áhrifin sem við höfum á aðra eru eitt það dýrmætasta sem til er. Það mun aldrei líða mér úr minni hversu fallega Hjörtur kom fram við aðra.
Ég votta fjölskyldu hans, vinum og ættingjum samúð mína. Hans verður sárt saknað á „okkar“ stað og minningin um einstakan dreng mun lifa.
Þorgrímur Þráinsson.