Lúinn Elon Musk er með mörg járn í eldinum.
Lúinn Elon Musk er með mörg járn í eldinum. — AFP
Raðfrumkvöðullinn Elon Musk birti tíst í síðustu viku þar sem hann viðraði möguleikann á að segja upp störfum sínum og gerast í staðinn áhrifavaldur á samfélagsmiðlum.

Raðfrumkvöðullinn Elon Musk birti tíst í síðustu viku þar sem hann viðraði möguleikann á að segja upp störfum sínum og gerast í staðinn áhrifavaldur á samfélagsmiðlum.

Musk er í dag ríkasti maður heims og eru auðæfi hans metin á rúmlega 265 milljarða dala. Hann er þekktur fyrir mikla vinnusemi og afköst en hann stýrir bæði rafbílaframleiðandanum Tesla, geimflaugafyrirtækinu SpaceX, innviðafyrirtækinu The Boring Company og líftæknifyrirtækinu Neuralink.

Reuters bendir á að Musk eigi það til að slá á létta strengi á samfélagsmiðlum en þó sé ekki hægt að segja til um það með vissu hvort hann hafi verið að grínast.

Musk hefur látið hafa eftir sér að honum þætti gaman að hafa meiri frítíma, í stað þess að vinna frá morgni til kvölds sjö daga vikunnar.

Það vakti mikla athygli í nóvember þegar Musk spurði fylgjendur sína á Twitter hvort hann ætti að selja 10% af eignarhlut sínum í Tesla. Setti hann spurninguna fram í formi könnunar og lofaði að fylgja niðurstöðunni. Úr varð að naumur meirihluti netverja hvatti hann til að selja og síðan þá hefur Musk selt frá sér hlutabréf fyrir nærri 12 milljarða dala.

Verður að teljast ósennilegt að Musk láti af störfum í bráð en á netfundi í janúar sagðist hann reikna með að halda áfram að stýra Tesla í mörg ár til viðbótar. ai@mbl.is