Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Í dag tekur friðlýsing Dranga í Árneshreppi gildi. Guðlaugur Þór Þórðarson, nýskipaður umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir ekkert hafa komið fram sem bendi til þess að friðlýsingin hafi ekki verið unnin samkvæmt núgildandi reglum.
„Ég lét skoða þetta eftir að athygli mín var vakin á því. Ég sendi upplýsingar um málið til formanns umhverfisnefndar. Þetta er búið að vera í gangi í langan tíma og virðist hafa verið gert í góðri sátt,“ sagði Guðlaugur í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann stefnir ekki að því að gera frekari athugasemdir um málið.
Nokkuð fjörlegar umræður voru á Alþingi í síðustu viku um friðlýsinguna. Gagnrýndu þar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Bergþór Ólason, þingmaður flokksins, friðlýsinguna og sögðu hana hafa mikil áhrif á virkjanakosti á svæðinu. Þá var einnig gagnrýnt að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þáverandi umhverfisráðherra, hefði friðlýst Dranga á elleftu stundu, tveimur dögum áður en ný ríkisstjórn var kynnt.