Mannvirkin í Úlfarsárdal eru á heimsmælikvarða og fyrir börnin í hverfinu skapa þau einstök skilyrði; skóli jafnt sem íþróttaaðstaða. Svæðið verður eftirsóknarvert til búsetu með þessari viðbót sem jafnframt mun laða að ferðamenn. Þetta sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík þegar hann opnaði sl. laugardag nýja hverfismiðstöð í Úlfarsárdal. Alls er byggingin um 18.000 fermetrar að flatarmáli og þegar er aðstaða leik- og grunnskóla komin í gagnið. Í þeim hluta hennar sem tekinn var í notkun um helgina eru sundlaug og bókasafn.
Í húsinu er einnig félagsmiðstöðin Fellið sem samastaður barna og unglinga í hverfinu. Á næsta ári bætast svo við íþróttahús og keppnisvöllur Fram og með því flyst öll starfsemi félagsins úr Safamýri í Úlfarsárdal.
Eftir að borgarstjóri hafði með hjálp barna í Úlfarsárdal klippt á borða, og með því opnað hverfismiðstöðina formlega, brá hann sér í sund á staðnum.
Dalslaugin er áttunda almenningssundlaugin í Reykjavík. Laugin er vel útbúin með sex brauta útilaug, pottum, vaðlaug og eimbaði. Einnig er innilaug sem nýtist vel til kennslu og æfinga en hingað til hafa börnin í Dalskóla þurft að fara út fyrir hverfið í skólasund. Gert er ráð fyrir stórri rennibraut sem kemur næsta haust. Heildaraðsókn í sundlaugar Reykjavíkur hefur verið rúmlega 2,3 milljónir gesta á ári og er Dalslaugin sögð góð viðbót í ört stækkandi hverfum í austurhluta borgarinnar.
Hverfismiðstöðinni er ætlað að þjóna íbúum í Úlfarsárdal og Grafarholti, sem eru um 8.000 talsins. Alls hafa framkvæmdir við borgarhúsið í Úlfarsárdal tekið um sex ár og er kostnaður við verkefnið um 14 milljarðar kr. VA arkitektar voru aðalhönnuðir hússins. Í þeim undirbúningi var lögð áhersla á atriði sem stuðla að heilsusamlegra umhverfi fyrir notendur byggingarinnar. Miðað er við að fólk noti sem mest umhverfisvænar samgöngur til og frá hverfismiðstöðinni, enda miðast áætlun strætisvagna og fjöldi hjóla- og hlaupahjólastæða við þá viðleitini.
Nauðsynleg aðstaða
Við opnunarathöfnina í Úlfarsárdal sagði borgarstjóri mikilvægt að í hverfum borgarinnar væri nauðsynleg aðstaða, svo sem fyrir íþróttir og menningu. Í uppvexti sínum í Árbæjarhverfi fyrir um 30 árum hefðu þar hvorki verið sundlaug né bókasafn. Fólk hefði orðið að gera sér að góðu að fara í laugar í öðrum hverfum og notfæra sér þjónustu bókabílsins. „Nú er þessi þjónusta öll komin í Úlfársárdal og ég er stoltur af því hvernig borgin hefur staðið að uppbyggingu hér,“ sagði borgarstjóri. sbs@mbl.is