Eyðilegging Bærinn Mayfield hefur orðið hvað verst úti í Kentucky.
Eyðilegging Bærinn Mayfield hefur orðið hvað verst úti í Kentucky. — AFP
Að minnsta kosti 94 týndu lífi í hvirfilbyljum sem geisuðu í Bandaríkjunum aðfaranótt laugardags. Kentucky-ríki hefur komið hvað verst út úr hamförunum en tala látinna þar er komin upp í 70 hið minnsta.

Að minnsta kosti 94 týndu lífi í hvirfilbyljum sem geisuðu í Bandaríkjunum aðfaranótt laugardags.

Kentucky-ríki hefur komið hvað verst út úr hamförunum en tala látinna þar er komin upp í 70 hið minnsta. Björgunarsveitir leita nú að fólki í rústum bæja en vonin er lítil. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir neyðarástandi í ríkinu, sem heimilar aukna fjárveitingu til björgunaraðgerða.

Fjörutíu manns var bjargað úr kertaverksmiðju í bænum Mayfield í ríkinu. Sextíu hafa fundist látnir og sagði ríkisstjórinn Andy Beshear að það væri kraftaverki líkast ef fleiri fyndust á lífi í verksmiðjunni.

Miðbærinn horfinn

Ástandið er hvað verst í bænum Mayfield og lýsti bæjarstjórinn Kathy O'Nan honum sem eldspýtnahrúgu.

„Þegar ég gekk út úr ráðhúsinu í morgun þetta leit út eins og eldspýtur,“ sagði O'Nan. „Kirkjurnar í miðbænum eru eyðilagðar, dómshúsið okkar, sem er auðvitað í miðju bæjarins, er rústir einar, vatnslagnirnar virka ekki og það er ekkert rafmagn.“

Starfsmenn festust inni í vöruhúsi Amazon í Edwardsville í Illinois á föstudag og létust sex hið minnsta. Að minnsta kosti 45 starfsmenn komust út úr rústum vöruhússins.

Dauðsföll hafa einnig verið tilkynnt í Arkansas, Tennessee og Missouri.

Í sjónvarpsávarpi til þjóðar sinnar á laugardag sagði Biden að óveðrið væri eitt það versta í sögu Bandaríkjanna. Hann hét því að stjórnvöld myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að hjálpa þeim ríkjum sem verst hafa orðið úti í hvirfilbyljunum.