Samkvæmt nýjustu tölum hækkaði verð á neytendavörum í Bandaríkjunum um 0,8% í nóvember og er það ögn minna en sú 0,9% hækkun sem mældist í október. Á tólf mánaða tímabili til og með nóvember hefur vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum hækkað um 6,8% og er það mesta ársverðbólga sem mælst hefur þar í landi síðan í júní 1982. Í október mældist verðbólga á tólf mánaða tímabili 6,2%.
Verðbólgan í nóvember var umfram spár hagfræðinga sem reiknuðu að jafnaði með 0,7% verðbólgu á milli mánaða, að sögn Reuters.
Á sama tíma fer atvinnuleysi minnkandi vestanhafs og mældist 4,2% í nóvember og hefur ekki verið lægri í 21 mánuð. Nýjum umsóknum um atvinnuleysisbætur hefur fækkað mikið og voru þær svo fáar í liðinni viku að leita þarf 52 ár aftur í tímann til að finna sambærilegar tölur.
Seðlabanki Bandaríkjanna mun ákveða um miðja þessa viku hvort tímabært sé að draga úr skuldabréfakaupum og jafnvel hækka stýrivexti. Þykja verðbólgutölur auka líkurnar á að seðlabankinn hækki stýrivexti von bráðar. ai@mbl.is