Björn Steindór Haraldsson fæddist 27. september 1950. Hann lést 27. nóvember 2021. Útför Björns fór fram 7. desember 2021.

Það var snemma árs 2014 sem ég kem inn á skrifstofu PwC á Húsavík sem þá var, líkt og tæp 40 ár á undan, stýrt af Birni St. Haraldssyni. Guðbrandur Sigurðarson, þáverandi framkvæmdastjóri PwC, hafði mögulega náð að sannfæra mig um að það gæti verið gott tækifæri að taka við skrifstofu PwC á Akureyri og vinna náið með Birni að framgangi skrifstofanna á Akureyri og Húsavík svo og að leysa Björn af hólmi þegar að starfslokum hans kæmi.

Fyrsti fundur okkar Björns var mér eftirminnilegur. Skrifstofa PwC var þá til húsa á Garðarsbraut 15 og óhætt að segja að skrifstofan hafi haft heimilislegt yfirbragð þar sem Margrét, eiginkona Björns, réð ríkjum og tók vel á móti mér líkt og um væri að ræða hennar eigið heimili, og eftir að hafa farið yfir helstu mál, ættfræði o.fl., var mér vísað inn á skrifstofu Björns. Þarna sat fyrir framan mig maður á 64. aldursári sem var í betra formi en ég sjálfur og ég rétt um þrítugt. Björn tók á móti mér með sínum hætti, fór yfir rekstur skrifstofunnar í grófum dráttum og hóf síðan að rekja úr mér garnirnar um hin ýmsu mál. Skemmst er frá því að segja að þessi fundur okkar gekk vel, þótt Björn hefði nú aldrei viðurkennt það, og ég sannfærður um að rétta skrefið væri að starfa með Birni að því sem síðar varð PwC á Norðurlandi.

Samstarf okkar Björns og ekki síður Margrétar var farsælt, og er það ómetanleg reynsla að hafa fengið að njóta leiðsagnar þeirra sem fagfólks með sín gildi um heiðarleika og hreinskiptni að leiðarljósi. Að geta leitað til þeirra með hin ýmsu mál var alltaf auðsótt og samtölin mörg. Björn var þó ekki endilega að orðlengja samtölin og oftar en ekki þegar búið var að leysa úr málinu hafði Björn á orði „var það eitthvað fleira?“ til vísbendingar um að samtalinu væri nú lokið og tími til kominn að snúa sér að öðru.

Litið til baka finnst mér eins og samstarf okkar Björns hafi varað í fjölmörg ár en í reynd störfuðum við einungis saman í um eitt og hálft ár. Er það til marks um hve lærdómsríkur tími það hafi verið, fyrir mig. Björn ákvað á vormánuðum 2015 að nú væri nóg komið í þessu starfi, stóð upp úr skrifstofustólnum og afhenti mér lyklana að skrifstofunni. Ég túlkaði það sem svo að nú væri mér treystandi fyrir skrifstofunni hans, þótt Björn hefði nú sennilega aldrei viðurkennt það. Til þess að skiptin myndu ganga betur fyrir sig ákvað Margrét að starfa áfram um nokkurra mánaða skeið á skrifstofunni á Húsavík og fyrir það er ég henni ævinlega þakklátur.

Það var og er ánægjuefni að upplifa þá virðingu sem Björn hafði unnið sér inn hjá viðskiptavinum skrifstofunnar á Húsavík og samferðarmönnum. Sú upplifun kom mér að sjálfsögðu ekki á óvart. Björn var sporgöngumaður í víðasta skilningi þess orðs og var það og er vandasamt verk að fylgja hans spori og líkast til það eina sem maður getur gert er að passa að hrasa ekki.

Takk fyrir allt og allt Björn. Elsku Margrét, innilegar samúðarkveðjur til þín og fjölskyldunnar.

Rúnar Bjarnason.