Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Líftæknifyrirtækið Ísteka ætlar að efla fræðslu á meðal allra þeirra starfsmanna sem koma að blóðgjöfum hryssa. Þannig munu bændur, dýralæknar og öryggisverðir hljóta formlega þjálfun á starfsstað.
Fyrirtækið greindi í síðustu viku frá því að samningum við tvo bændur hefði verið rift á grundvelli dýravelferðarfrávika. Ástæðan fyrir riftun samninga er sú meðferð sem sást í myndbandi svissneskra dýravelferðarsamtaka sem gefið var út í nóvember.
Dýralæknar taka blóðið
Aðgerðir Ísteka nú miða meðal annars að því að vanda betur valið á þeim hryssum sem gefa blóð. Þá verður skapgerð hverrar hryssu fyrir sig metin og hryssur sem sýni óeðlileg streituviðbrögð útilokaðar. Þetta kemur fram í aðgerðaáætlun Ísteka sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Arnþór Guðlaugsson, hefur sent Morgunblaðinu.Gætt verður að því að starfsmenn læri rétta hegðun við blóðgjafirnar og þeim kennt hvernig nálgast megi dýrin með ró. Nú þegar eru allar blóðgjafir framkvæmdar af dýralæknum og á starfsemin að vera undir eftirliti bæði Matvælastofnunar og Ísteka þar sem sérstakur dýravelferðarfulltrúi starfar.
Í umbótaáætlun Ísteka er einnig gert ráð fyrir að myndavélar verði settar upp þar sem blóðgjafir fara fram og því verði upplýsingum frá hverjum bæ safnað og þær geymdar í ákveðinn fjölda ára.
Þá verði fengnir sérfræðingar til að rýna í upplýsingarnar með reglubundnum hætti. Gerðar verði verklagsreglur og þær verði aðgengilegar á öllum bæjum, hjá dýralæknum og öryggisvörðum.