Á laugardaginn birtist hér í Vísnahorni gáta Guðmundar Arnfinnssonar: Tengja karl og konu má, kannski líka fiska tvo. Tónar streyma tíðum frá. Á töðuvelli eru svo.

Á laugardaginn birtist hér í Vísnahorni gáta Guðmundar Arnfinnssonar:

Tengja karl og konu má,

kannski líka fiska tvo.

Tónar streyma tíðum frá.

Á töðuvelli eru svo.

Eysteinn Pétursson leysti gátuna svo skemmtilega að mér finnst svar hans í heild eiga erindi í Vísnahorn:

„Ég vona sannarlega að þessi lausn sé rétt, því að ég er búinn að hafa mikið fyrir þessu!

Fyrst kom þetta:

Maður um konu bandi brá.

Batt ég ýsuband sjónum á.

Tónar berast mér bandi frá.

Band á túnum ég einatt sá.

Svo fékk ég eftirþanka um að menn kynnu að sjá merki um ofbeldi í fyrstu línunni og þá varð þetta til:

Par í hjónaband hneppa má.

Hengja menn keilubönd enn á rá?

Tónar berast mér bandi frá.

Band á túnum ég einatt sá.

En svo sótti á mig efi um að fólk þekkti almennt til þeirrar skreiðarverkunar sem ég fékkst við ungur, þegar tvær keilur (fiskar) voru spyrtar saman og hengdar unnvörpum á rár til þerris, þær svo pressaðar saman og þeim pakkað á Nígeríumarkað.

Þannig að til þess að allir mættu nú njóta skáldskaparins án mikillar fyrirhafnar setti ég að lokum þetta saman:

Par í hjónaband hneppa má.

Hnýtti ég ýsuband títt á sjá.

Tónar berast mér bandi frá.

Band á túnum ég einatt sá.

Reyndar hef ég orðið þess áskynja, að ungir menn um fimmtugt kannast ekki við orðið ýsuband – þannig að kannski er þetta allt unnið fyrir gýg!

Ég ætla að leyfa þér að ráða hvort þú „tekur sjensinn“ og birtir eitthvað af þessu.“

Ég fékk góðan póst frá gömlum vini: „Hinrik Már Jónsson, sem býr á Syðstu-Grund, undir hinu fagra fjalli Glóðafeyki í Skagafirði, birtir gjarnan myndir af bæjarfjalli sínu. Nýlega birti hann mynd af fjallinu í fallegri vetrarsól. Guðmundur Sveinsson á Sauðárkróki brást þannig við:

Hulinn snjó og hnakkakerrtur

á himni skýjadrag.

Feykirinn er furðu sperrtur

fagurt er í dag.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is