Steinar Kristján Jónasson með gersemar á safni Náttúrufræðistofnunar.
Steinar Kristján Jónasson með gersemar á safni Náttúrufræðistofnunar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Titill einnar bókar Þórbergs Þórðarsonar, æskuminninga úr Suðursveit, er Steinarnir tala . Titillinn er góður og vissulega eru til margar sögur um steina og annað í náttúru okkar.

Titill einnar bókar Þórbergs Þórðarsonar, æskuminninga úr Suðursveit, er Steinarnir tala . Titillinn er góður og vissulega eru til margar sögur um steina og annað í náttúru okkar. Í geymslum Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ eru til dæmis steinar sem geimfarar, sem fóru til tunglsins á sínum tíma, tóku með sér til jarðar. Þetta var annars vegar í fyrstu tunglferðinni, leiðangri Neils Armstrongs og félaga í júlí 1969. Steinar úr þeim leiðangri, sem kallaður var Apolló 11., fóru til margra landa og fyrir hönd Íslendinga veitti forseti Íslands þessari gjöf Bandaríkjamanna viðtöku.

Basalt í plasti

Þá var Íslendingum árið 1973 gefinn steinn úr tunglferð árið áður, en 1972 voru tunglferðir Bandaríkjamanna tvær. Sú síðari var í desember það ár og meðal geimfara sem þá voru um borð í Apolló 17. var Harrison Schmitt. Sá fékk eins og aðrir tunglfarar þessa tíma þjálfun og undirbúning á Íslandi og til upprifjunar kom hann í heimsókn hingað til lands sumarið 2015.

„Steinarnir eru úr tunglbasalti, sem er raunar mjög líkt venjulegu jarðnesku basalti,“ segir Kristján Jónsson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og umsjónarmaður steinasafns þess.

Tunglsteinarnir eru agnarlitlir og varðveittir í plasthylki, sem festar eru á fjalir sem íslenski fáninn er lagður á. Steinarnir voru fyrst í vörslu forsetaembættisins en seinna færðir Náttúrufræðistofun Íslands. Þeir hafa verið sýndir við valin tilefni, meðal annars í Könnunarsafninu á Húsavík. Einnig hafa steinarnir góðu verið sýndir við ýmis tilefni í bandaríska sendiráðinu í Reykjavík.

„Já, það má vel hugsa sér að tunglsteinarnir verði sýndir oftar og víðar í framtíðinni. Slíkt er þó allt undir því komið að öryggismál séu í lagi, svo dýrmætir sem þessir gripir eru,“ segir Kristján. sbs@mbl.is