Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Stærsta og öflugasta geimsjónauka, sem smíðaður hefur verið, verður skotið á loft skömmu fyrir jól en honum er ætlað að afla upplýsinga um hvernig alheimurinn varð til og um fjarlægar reikistjörnur, líkar jörðinni, í öðrum sólkerfum.
Sjónaukinn er nefndur eftir James Webb, fyrrverandi forstjóra bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, og tekur við af Hubble-geimsjónaukanum, sem hefur verið á sporbraut um jörðu síðustu þrjá áratugi. Standa vonir til að Webb-sjónaukinn auki skilning manna á því hvernig alheimurinn myndaðist fyrir nærri 14 milljörðum ára.
Stjarnfræðingurinn John Mather, einn af forvígismönnum Webb-verkefnisins, lýsti því nýlega í tísti á Twitter hvað nýi sjónaukinn væri næmur.
„#JWST getur mælt varmann frá býflugu á tunglinu,“ tísti hann, að því er kemur fram í frétt fréttaveitunnar AFP.
Stærstu spurningarnar
Webb-sjónaukinn á að geta greint dauft ljós sem fyrstu sólkerfi alheimsins sendu frá sér þegar fyrstu stjörnurnar mynduðust. Hubble-sjónaukinn getur greint atburði sem urðu í geimnum um 500 milljónum ára eftir Miklahvell en Webb getur greint atburði sem urðu um 300 milljónum ára fyrr.„Þessi sjónauki er hannaður til að svara stærstu spurningunum, sem nú er fengist við í stjörnufræði, sagði Amber Straughn, stjarneðlisfræðingur hjá NASA, í fyrirlestri árið 2017.
„Við vonumst til að geta séð þessi fyrstu sólkerfi og hvernig þau þróuðust,“ bætti hún við.
Einnig er sjónaukanum ætlað að afla upplýsinga um nærri fimm þúsund reikistjörnur utan okkar sólkerfis, sem eru í réttri fjarlægð frá stjörnum til að þar gæti þrifist líf. Vísindamenn vilja einnig vita hvernig lofthjúpur þeirra er og hvort þar kunni að finnast vatn. Þá er Áformað að rannsaka okkar sólkerfi nánar, þar á meðal Mars og Evrópu, ísilagt tungl Júpíters.
Mikil spenna
„Spennan er mikil, við höfum beðið þessarar stundar lengi,“ sagði Pierre Ferruit, verkefnastjóri hjá Evrópsku geimferðastofnuninni, ESA, við AFP. ESA og Kanadíska geimferðastofnunin hafa tekið þátt í þróun Webb-sjónaukans og Ferruit, líkt og þúsundir samstarfsmanna hans, hefur unnið að verkefninu mestan sinn starfsferil.Hann segir að fjölmargar vísindastofnanir keppist nú um að fá aðgang að upplýsingum frá sjónaukanum. „Þótt liðin séu 20 ár eru spurningarnar sem Webb á að svara enn jafn knýjandi,“ sagði Ferruit.
Sjónaukinn er risavaxinn og flókinn. Spegillinn, sem notaður er til að safna upplýsingum, er 6,5 metrar í þvermál, þrisvar sinnum stærri en á Hubble-sjónaukanum. Er hann búinn til úr 18 sexhyrndum minni speglum úr gullhúðuðu berylíni sem getur endurvarpað innrauðu ljósi frá ystu mörkum alheimsins. Brjóta þarf spegilinn saman svo hann komist fyrir í Ariane-5-eldflauginni, sem á að flytja hann á sporbraut sína.
Þegar sjónaukinn verður kominn á sinn stað þarf að breiða úr speglinum á ný og koma fyrir sólarskildi, sem er á stærð við tennisvöll. Það mun taka hálfan mánuð. Sjónaukinn verður á braut um sólina í um 1,5 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni, mun lengra í burtu en Hubble, sem hefur verið á braut um jörðu í 600 kílómetra fjarlægð síðan 1990.
Fyllt á tankana
Vinna við Webb-verkefnið hófst hjá NASA árið 1989 og smíði sjónaukans hófst árið 2004. Upphaflega var áformað að senda sjónaukann út í geim árið 2007 en ýmis vandamál komu upp sem hafa tafið starfið. Þá hefur kostnaðurinn margfaldast frá fyrstu áætlunum og er nú metinn á 10 milljarða dala, jafnvirði um 1.300 milljarða króna. Yfir 10 þúsund manns hafa unnið að verkefninu. Miðað er við að sjónaukinn geti safnað upplýsingum í að minnsta kosti fimm ár en vonast er til að hann endist í áratug hið minnsta.Webb-sjónaukinn var byggður í Bandaríkjunum og fluttur til Kourou í Frönsku Gíneu á þessu ári en þaðan verður honum skotið á loft væntanlega 22. desember. Áætlað er að ferðalagið á áfangastað taki um mánuð.
„Nú er bara eftir að fylla á eldsneytistankana,“ sagði Ferruit.