Andrés Magnússon andres@mbl.is Tvö hverfafélög Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafa ályktað gegn fyrirliggjandi áformum um borgarlínu og vilja að samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins verði tekinn til endurskoðunar.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Tvö hverfafélög Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafa ályktað gegn fyrirliggjandi áformum um borgarlínu og vilja að samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins verði tekinn til endurskoðunar.

„Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa miklar áhyggjur af því hvernig borgarstjórnarmeirihlutinn ætlar að útfæra borgarlínuna, því sú aðferð að þrengja að umferð og taka akreinar burt mun ekki leysa umferðarvandann, heldur þvert á móti,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, um þetta, en það eru félög sjálfstæðismanna í Árbæ annars vegar og í Nes- og Melahverfi hins vegar sem hafa ályktað í þessa veru, en hverfin eiga ólíkra hagsmuna að gæta í samgöngum. Skoðanakannanir sýna að stuðningur við borgarlínu er mestur í miðborginni, en minnkar eftir því sem utar dregur.

Sér í lagi er það kostnaðurinn sem vex mönnum í augum, en verkefnið er sagt bæði gífurlega kostnaðarsamt og óarðbært, en einnig að ótímabært sé fyrir Reykjavíkurborg að leggja í slíka fjárfestingu með miklar skuldir á bakinu og óvissu um ávinninginn.

Árbæingar benda á að ein meginhugmynd borgarlínu felist í því að fækka verulega núverandi akreinum almennrar umferðar, sem myndi enn auka á umferðartafir, valda vegfarendum ómældum kostnaði með óþarfri tímaeyðslu, auk heilsutjóns vegna aukinnar mengunar. Þeir telja að það muni mest bitna á íbúum í efri byggðum borgarinnar og gjaldtakan vegna verkefnisins sömuleiðis.

Eyþór tekur undir þetta í samtali við Morgunblaðið.

„Það er ekkert í samgöngusáttmálanum sem kallar á þessar þrengingar sem Reykjavíkurborg er að ráðgera, og Árni M. Mathiesen, stjórnarformaður Betri samgangna, hefur staðfest það. Hér er verið að misnota samgöngusáttmálann í því skyni að þrengja að almennri umferð að óþörfu.“