Meirihlutinn í borginni ætlar með klækjum í gegnum komandi kosningar

Núverandi borgaryfirvöld ætla sér að þrengja mjög verulega að íbúum Bústaða- og Fossvogshverfis. Kynnt hafa verið áform um þetta sem eru svo fjarstæðukennd og hefur verið það illa tekið að meirihlutinn sjálfur lýsir þeim nú þannig að þetta séu tillögur „á algjöru grunnhugmyndastigi“.

Á íbúafundi í liðinni viku sagði borgarstjóri að þetta væru vinnutillögur og undanfari formlegrar tillögu að hverfaskipulagi. Næst yrði unnin formleg tillaga og farið í annað kynningarferli og sagði borgarstjóri að oft væri fallið frá tillögum eftir samráð.

Hvers vegna skyldi meirihlutinn setja alla þessa fyrirvara við eigin tillögur nú? Ætli það geti tengst því að fram undan eru borgarstjórnarkosningar og að þess vegna sé klókt að láta íbúana halda að niðurstaðan verði ef til vill ekki sú hörmung sem nú hefur verið kynnt? Það skyldi þó ekki vera.

En klækjabrögð borgarstjóra og félaga í meirihlutanum breyta því ekki að við borgarbúum blasir hvert meirihlutinn stefnir. Hann segist hafa „grænt plan“ um uppbyggingu en staðreyndin er sú að hann má hvergi sjá grænan blett í borginni án þess að vilja reisa þar nokkurra hæða hús.

Meirihlutinn segist ekki vera á móti einkabílnum, en hann þrengir allar götur sem hann kemst yfir og fjarlægir bílastæði af miklu kappi. Og þegar hann skipuleggur nýja byggð á grænu blettunum þá gætir hann þess að hafa vel innan við eitt stæði á íbúð, þ.a. flestir íbúarnir, bæði þeir nýju og hinir sem fyrir voru í hverfinu, lenda í vandræðum.

Auk þessa vill meirihlutinn leggja borgarlínu sem á víða að taka burtu akreinar með þeim augljósu afleiðingum að umferðin verður enn hægari og teppurnar verri. En það er eins með borgarlínuna og Bústaða- og Fossvogshverfið, hún er ekki endanlega útfærð þannig að hægt er að halda því fram að niðurstaðan verði ekkert endilega jafn slæm og við blasir. Þetta verður seint talinn heiðarlegur málflutningur í aðdraganda kosninga, en það er ekki hægt að útiloka að hann verði árangursríkur.