Gunnbjörn Ólafsson fæddist 18. mars 1938. Hann lést 25. nóvember 2021. Útför fór fram 2. desember 2021.

Elsku afi, nú setjumst við niður til þess að skrifa um þig nokkur orð. Það er svo ótal margt sem kemur upp í hugann á þessari stundu.

Við minnumst þín með hlýhug og brosi þegar við hugsum til baka, þegar dagarnir okkar einkenndust af prakkarastrikum, stríðni, brosi og miklum hlátri. Það átti jafn vel við um þig og okkur.

Til að mynda gerðist það reglulega að okkur langaði í ís en við fengum ekki leyfi til þess. Þá glottir þú og laumaðist í frystinn og brosandi réttir okkur ísinn. Í kjölfarið varst þú skammaður og þá hlóst þú bara og brostir til okkar. Þetta fannst okkur fyndið.

Þú varst einstakur persónuleiki, virkilega góðhjartaður, hjálpsamur og jákvæður.

Húmorinn þinn var einstakur og þú varst ófeiminn við að gera grín að sjálfum þér og okkur, svo við veltumst um af hlátri. Eitt sinn á ferð þinni að vestan þá sofnaðir þú undir stýri og endaðir utan vegar. Sem betur fer urðu engin slys en skömmu síðar vorum við saman í bíl þar sem þú sagðir við mig: „Ég er orðinn svolítið þreyttur, þú pikkar í mig ef ég sofna.“ Þú sást að mér stóð ekki á sama og skelltir upp úr.

Eftir að við systkinin komumst á fullorðinsár þá fylgdist þú samt alltaf vel með og sýndir lífi okkar áhuga. Þú lást ekki á skoðunum þínum án þess samt að vera afskiptasamur og bentir alltaf á björtu hliðarnar. Reglulega spurðir þú okkur hvort við þyrftum nú ekki að fara að finna okkur maka og fara að eiga börn. Þú beiðst ansi lengi eftir því að við barnabörnin færum að fjölga okkur og gera þig af langafa. Það var gaman að sjá hversu ánægður þú varst yfir því að verða loksins langafi í sumar.

Við áttum virkilega margar góðar stundir saman, þar á meðal sumarið þegar nafnarnir voru saman á sjó. Sá yngri á unglingsárum og átti það til að sofa heilu og hálfu túrana því þú vildir ekki vekja hann. Þegar hann vaknaði svo með samviskubit yfir að hafa sofið svona lengi þá hlóst þú bara að honum. Þetta sumar var virkilega dýrmætur tími.

Okkar samband var náið og fullt af kærleik, þú varst alltaf til staðar fyrir okkur og tilbúinn að skottast með okkur, fyrir það verðum við ævinlega þakklát.

Þú varst óhemjuduglegur og lést ekkert stoppa þig þegar á móti blés eða líkaminn fór að gefa sig.

Við minnumst þín brosandi en brosið og hláturinn einkenndi þig alveg fram að kveðjustund þrátt fyrir veikindin. Viðhorf þitt til lífsins er okkur minnisstætt en það skein í gegn þegar þú greindist með heilabilun og sagðir: „Þið þurfið ekkert að hafa áhyggjur af mér, ég er orðinn gamall kall og svona á þetta að vera. Ég er þakklátur fyrir það að hafa fengið að verða gamall.“

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm,

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni

og nú ertu gengin á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson frá Grímsstöðum)

Bless, elsku afi, við munum sakna þín.

Sveinbjörg, Gunnbjörn og Guðný Ösp.