Þegar flestir kristnir menn fleygja sér upp í sófa, njóta samverunnar með ástvinum og gera vel við sig í mat og drykk reima leikmenn í ensku knattspyrnunni á sig takkaskóna og spyrna sem enginn væri morgundagurinn. Hitað verður upp fyrir jólin með átta liða úrslitum í deildabikarnum í vikunni en síðan verður hlaðið í heilar þrjár umferðir um hátíðirnar.
Veislan byrjar annan í jólum þegar nánast heil umferð er á dagskrá og verður leikið kl. 12:30, 15, 17:30 og 20. Strax tveimur dögum síðar hefst næsta umferð og lýkur henni fimmtudaginn 30. desember. Menn kasta mæðinni aðeins á gamlársdag en á nýársdag og 2. janúar er þriðja umferðin á einni viku á dagskrá.
Meðal spennandi leikja má nefna Manchester City gegn Leicester 26. desember, Manchester United gegn Burnley 30. desember og Chelsea gegn Liverpool 2. janúar. Allt er þetta sagt með fyrirvara um að Ómíkron skerist ekki í leikinn.