Jóhann Ísleifsson fæddist í Reykjavík 12. mars 1947. Hann lést á Landakotsspítala 27. nóvember 2021.

Foreldrar hans voru hjónin (slitu samvistir) Ísleifur Annas Pálsson framkvæmdastjóri, f. 27. febrúar 1922, d. 14. desember 1996, og Ágústa Jóhannsdóttir húsfreyja, f. 10. desember 1922, d. 31. mars 2013. Foreldrar Ísleifs voru Páll Oddgeirsson, kaupmaður og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, f. 5. júní 1888, d. 24. júní 1971, og k.h. Matthildur Ísleifsdóttir húsfreyja, f. 7. maí 1900, d. 29. ágúst 1945. Foreldrar Ágústu voru Jóhann Þ. Jósefsson, alþingismaður og ráðherra, f. 17. júní 1886, d. 15. maí 1961, og k.h. Magnea Dagmar Þórðardóttir húsfreyja, f. 10. október 1901, d. 2. júlí 1990.

Bræður Jóhanns eru dr. Ólafur Ísleifsson hagfræðingur og fv. alþingismaður, f. 10. febrúar 1955, áður kvæntur Dögg Pálsdóttur hrl., sonur þeirra er Páll Ágúst lögmaður, f. 26. febrúar 1983, kvæntur sr. Karen Lind Ólafsdóttur, og Örn Ísleifsson flugstjóri, kvæntur Guðrúnu Þóru Magnúsdóttur fv. bankastarfsmanni, f. 13. janúar 1956, og eru synir þeirra Ólafur Örn, listamaður og galleristi í Berlín, f. 13. júlí 1976, og Magnús Gísli atvinnubílstjóri, f. 10. desember 1980, d. 6. ágúst 2020.

Jóhann ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík, framan af á Hagamel 23, síðar á Kvisthaga 4 og hlaut hefðbundna skólagöngu. Jóhann lagði stund á bankastörf í Kaupmannahöfn og Reykjavík og var deildarstjóri víxladeildar Iðnaðarbanka Íslands. Eftir það hafði hann ýmis störf með höndum.

Jóhann var ókvæntur og barnlaus. Heimili hans síðustu áratugi var í Þórufelli 11, Reykjavík.

Útför Jóhanns hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Átta ár eru mikill aldursmunur milli systkina. Þannig stóð á hjá okkur bræðrum. Við Örn bróðir fengum þó stöku sinnum að taka þátt í ævintýrum Jóhanns og vinar hans Óla Kristjáns Sigurðssonar, síðar kaupsýslumanns. Eitt var að selja flugelda í Hafnarstræti, annað var að sviptast á vörubílspalli einhverra erinda.

Ég kannski kynntist Jóhanni fyrst kominn á unglingsár þegar við unnum saman í Bæjarútgerð Reykjavíkur sumarið 1973, hann á milli starfa og ég á leið í 5. bekk í MR. Starfið fólst í að vinna á skreiðarpressu, við stöfluðum inn skreiðinni og hún þjappaði skreiðarbagga sem við brugðum um járnvír og hertum að. Okkur líkaði vel að vinna í fiski og vorum samhentir. Um tíma unnum við í sænska frystihúsinu við Arnarhól. Óvarinn snigill í gólfi ísklefans hefði getað búið mönnum bráðan háska. Okkur var um megn að ræða þessa hættu síðar á lífsleiðinni.

Seinna kynntist ég Jóhanni betur. Hann hafði frá mörgu að segja, siglingum með Gullfossi, og ferðalögum til útlanda. Ungur var hann í fiskvinnslu hjá Alliance austast á Ægisíðu þar sem stóð þyrping húsa sem nú eru öll horfin. Ebbi verkstjóri var honum ofarlega í huga. Hann lagði honum lífsreglurnar. Þá átti Jóhann góðar minningar úr Vatnaskógi þar sem hann var mörg sumur, lengst af sem borðforingi.

Hugur Jóhanns var alla tíð bundinn sjónum. Hann kunni góð deili á mörgum skipum í íslenska flotanum. Hugur hans ungs beindist að Stýrimannaskólanum og sjómennsku. Af því varð ekki. Jóhann fór til Kaupmannahafnar og lagði þar stund á bankastörf um árabil. Eftir að heim kom aftur vann hann sig upp innan bankakerfisins og varð deildarstjóri víxladeildar Iðnaðarbankans. Þar átti hann gott samstarfsfólk og naut trausts viðskiptamanna. Frá þessum árum minntist Jóhann oft lofsamlega Péturs Sæmundsens bankastjóra.

Jóhann hafði leitandi huga og jók við þekkingu sína ævilangt með lestri og viðræðum. Skörp sýn hans á málefni líðandi stundar var mér ætíð gagnleg og mikilvæg. Jóhann var víðsýnn, umburðarlyndur og fordómalaus, orðvar og sanngjarn í ummælum um menn og málefni.

Jóhann var glæsilegur að vallarsýn, hávaxinn og grannur, einhleypur og barnlaus. Meðan foreldra okkar naut við lagði hann sig fram um að vera þeim innan handar og til stuðnings. Um afa Jóhann, sem hann mundi vel eftir, sagði hann: Hann haggaðist ekki, sama hvað á gekk, og lýsti með þeim orðum skaphöfn hans.

Jóhann var vinmargur enda viðræðugóður, víðlesinn, vel máli farinn og glettinn í orðum án minnstu kerskni. Af því að Jóhann var fæddur sama mánaðardag og Þórbergur Þórðarson er ekki úr vegi að vitna til meistarans sem sagði grunntón tilverunnar vera meinlaust grín. Þau orð voru Jóhanni kannski ekki fjarri.

Síðustu árin urðu Jóhanni erfið vegna vaxandi heilsubrests. Tvær konur tóku sig fram um að gera honum lífið auðveldara, þær Amel Joy Sigurjónsson og Svandís Birkisdóttir. Færi ég þeim alúðarþakkir sem og starfsfólki Landakotsspítala þar sem Jóhann dvaldist lengi síðustu misserin.

Að leiðarlokum bið ég Guð að varðveita og blessa Jóhann bróður minn.

Ólafur Ísleifsson.