Maðurinn hefur frá örófi alda fengist við að teikna upp heiminn í kringum sig, til þess að átta sig betur á umhverfinu, vísa öðrum veginn eða skrásetja. Lengi vel var kortagerð ófullkomin fræði, en gat verið mikil list. Menn lögðu mikið á sig til þess að gera nothæf kort, skreyttu þau oft ríkulega, enda voru þau miklar gersemar hverjum þeim, sem vildi rata um heiminn. Núorðið tökum við þau nánast sem sjálfsagðan hlut og höfum mestallan heiminn í vasanum í snjallsímum, þar sem kort netrisa á borð við Google og Apple verða æ fullkomnari og hjálpa okkur að rata fyrirhafnarlaust, finna næsta bakarí eða áhugaverðar gönguleiðir.
Saga kortanna er áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Hún veitir okkur innsýn í hvernig þekking mannsins jókst, bæði hvað heiminn sjálfan varðar en einnig þau vísindi og tækni, sem notuð voru til kortagerðar. Og jafnvel það sem menn vissu ekki gefur okkur innsæi í hugarheim þeirra sem á undan gengu, þegar hið óþekkta gat verið merkt sæskrímslum eða uppspuna.
Reynir Finndal Grétarsson er sjálfsagt þekktastur úr atvinnulífinu, farsæll frumkvöðull og forstjóri, en hann er líka kortasafnari af lífi og sál. Sá áhugi leynir sér ekki í bók hans Kortlagning heimsins – frá Grikkjum til Google Maps .
Þetta er falleg bók, nokkuð voldug, prentuð á vandaðan pappír í góðu bandi og sómir sér vel á sófaborði eða á heiðursstað í bókaskáp. (Best fer þó auðvitað á því að hafa hana opna á borði fyrir framan fróðleiksfúsan lesanda!) Hún er ríkulega myndskreytt af kortum, eins og vera ber. Það er helst að finna megi að því að sum kortin séu ekki nógu stór, þó bókin sé ekki í smáu broti, en um það er lítt að fást; frumritin eru mörg flennistór og óhjákvæmilegt að kortin séu smækkuð í bók.
Þó má nefna að sum eldri kort eru fulldökk eða móskuleg, svo þar hefði að ósekju mátt lýsa þau til þess að gera þau greinilegri. Þá kemur fyrir á stöku stað að upplausnin á myndunum er ekki nógu mikil, þannig að kortin eru ógreinileg og textinn loðinn. Við því er svo sem ekki mikið að segja, það er miserfitt að nálgast góðar myndir af öllum þessum sæg korta, svo einhver þeirra hefur þurft að nálgast af netinu. Þau eru betri þannig en ef þeim hefði verið sleppt.
Það eru þó ekki kortin ein sem prýða bókina, því hún er skrifuð af smitandi áhuga, jafnvel ákefð.
Bókin er kaflaskipt, fyrst er þar fjallað um upphaf kortlagningar heimsins, en svo saga kortlagningar hverrar álfu heimsins fyrir sig, auk sérkafla um kortasögu Íslands. Hins vegar saknar ritdómari þess að undirfyrirsögnin sé almennilega botnuð í bókinni. Þar hefði vel mátt vera kafli um hin nytsömu snjallkort netrisanna (sem hafa misjafnar áherslur í hönnun þeirra, gerð og gögnum), hvernig unnið er að þrívíddarkortum með mannvirkjum, jafnvel kortlagningu annarra hnatta. Það er þá efni í aðra bók.
Textinn er einkar lifandi og fjörlegur, stundum kumpánlegur en án alls yfirlætis, því þarna er ekki aðeins greint frá sögu, heldur sagðar sögur. Og nóg af þeim! Bókin er full af fróðleik sem er samofinn framvindu kortasögunnar, sumt skemmtileg smáatriði og útúrdúrar, en allt til þess að styðja hina stóru samfellu sögunnar. Samt þó þannig að það er auðvelt að grípa niður í bókina, nánast hvar sem er, og lesa sér til gagns og gamans, án þess að hafa lesið það sem kom á undan og hitt sem eftir fór.
Sem fyrr segir er textinn líflegur og ekki alltaf hátíðlegur, en ávallt skýr og skiljanlegur. Fyrir vikið kann bókin að vera aðgengilegri fyrir börn og unglinga en ella, en þó ekki þannig að textinn vefjist fyrir hinum eldri. Það er allt í góðu jafnvægi.
Áhugi höfundarins á efninu leynir sér ekki og hann kann að vekja áhuga lesandans á þessu eilítið fornlega efni. Það má finna nokkrar smávægilegar og meinlausar villur í þessum doðranti, en ekkert sem ástæða er til að tína til hér, enda biður höfundur lesendur um það í formála að hafa ekki áhyggjur af slíku.
Sem er vel skiljanlegt, því Kortlagning heimsins er ekki akademískt fræðirit, heldur alþýðlegt yfirlitsrit – stútfullt af myndum, sögum og fróðleiksmolum – til þess gerð að vekja áhuga og athygli á fegurð landakorta og því hvernig þau lýsa heiminum og okkur.
Andrés Magnússon