Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: "Njótum aðventunnar og jólanna með því að núllstilla og hlaða okkar andlegu batterí."

Hversu dásamlegt og óendanlega þakkarvert er það að fá að taka litla jólabarnið, frelsarann okkar Jesú Krist, inn að hjartanu. Gera hjörtu okkar að vöggunni hans. Hans sem fær svo vonandi að vaxa í hjörtum okkar, þroskast þar með okkur og dafna. Og jafnvel þótt við viljum með einhverju móti reyna að losa okkur við hann, þá verðum við alla tíð snortin af honum að því gefnu að við höfum einhvern tíma gefið honum tækifæri á að stíga inn og setjast þar að. Því hann markar djúp spor í hjörtum okkar og hefur þannig áhrif til góðs á allt okkar líf.

Hann er í dag og í gær hinn sami og um aldir og mun alltaf verða. Hann lagar sig að ólíkum þörfum okkar í öllum þeim ólíku verkefnum sem upp kunna að koma þar sem við biðjum þess að fá að vera samferðafólki okkar til blessunar og þar sem honum er gefin dýrðin.

Ilmurinn af lífinu

Ilmurinn af nýfæddu barni er ilmurinn af lífinu. Maður fyllist lotningu og þakklæti, kemst við. Fyllist auðmýkt yfir þessu nýfædda kraftaverki. Lífsins undri. Jesús sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín því þeirra er himnaríki.

Þeir sem taka ekki við Guðsríki eins og börn munu aldrei inn í það koma.“

Þangað sem fyrirheitin er að finna og huggun, styrk og skjól að sækja. Í orðin sem veita okkur friðinn sanna og skjólið fyrir hvers konar vonbrigðum og óáran og þá framtíðarsýn sem segir okkur að okkur sé óhætt, þrátt fyrir allt heimsins böl, því hann er hjá okkur, fylgir okkur eftir og leiðir hvern dag, hverja stund.

Hugsið ykkur að grunntákn kristninnar er annars vegar nýfætt barn liggjandi í dýrastalli í fjárhúsi. Stalli sem dýrin éta heyið upp úr. Og hins vegar illa leikinn líkami ungs manns, rúmlega þrítugs, hangandi pyntaður, deyjandi og látinn á krossi.

Sjáðu barnið fyrir þér hangandi á krossinum, þetta barn ungra foreldra þar sem unnusti móðurinnar var ekki sagður pabbinn og enginn vissi hvað hann átti að halda. Þetta barn sem átti eftir að þola einelti, pyntingar og óréttlæti.

Hvernig sem okkur líður, hverju sem við höfum misst af og hvað það er sem við þurfum að þola, þá hefur hann verið þar. Hann þekkir aðstæðurnar. Hann, fyrirgefandi og friðgefandi og huggarinn mesti. Frelsari heimsins. Hin himneska jarðtenging sem við öll þurfum á að halda að tengja okkur við.

Já, sítengja með þráðlausu sambandi vonarinnar, náðarinnar og bænarinnar um að hann biðji fyrir okkur og taki á móti okkur. Styðji, huggi og styrki. Hvar og hvenær sem er í öllum aðstæðum.

Aðventan er einmitt upplagður tími til uppgjörs. Og nýrra væntinga. Fæðingarhríðir inn í þann draumaheim sem við þráum svo heitt og innilega og koma skal. Tökum hann inn að hjartanu.

Guð gefi okkur að láta það eftir okkur að fá að vera farvegir kærleika hans, fyrirgefningar, friðar og fagnaðarerindis á þessari aðventu og um komandi jól. Á nýju ári og um ókomna tíma. Kynslóð eftir kynslóð uns við samlögumst honum, ljósi lífsins í himinsins heilögu sælu og eilífu dýrð.

Njótum aðventunnar og jólanna með því að núllstilla og hlaða okkar andlegu batterí. Svo að Jesús fái rými til að rækta kærleika í hjörtum okkar svo við tökum að sjá fólk með hjartanu. Og leyfum kærleikanum svo að flæða frá hjarta til hjarta svo hann verði raunverulega að eilífu óslökkvandi ljósi á meðal okkar.

Njótum aðventunnar í ljósi jólanna og ævinnar í ljósi lífsins.

Kærleikans Guð gefi okkur öllum heilög jól. Í Jesú nafni.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

– Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf.: Sigurbjörn Þorkelsson