Viðtal
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Margt hefur breyst á þeim tæpu tveimur árum sem eru liðin frá því kórónuveirufaraldurinn hófst. Samkomutakmarkanir, grímuskylda og persónubundnar sóttvarnir eru ekki lengur framandi hugtök og aukinn tími heima við hefur kallað á aukna spurn eftir afþreyingu. Þar hafa hlaðvörp komið afar sterk inn og allt í einu þykir enginn maður með mönnum nema að fylgjast með nokkrum slíkum, hvort sem fólk gerir það í sóttkvíar-göngutúr eða bara heima um leið og það brýtur saman þvottinn.
Eitt allra vinsælasta hlaðvarp landsins er Draugar fortíðar sem Flosi Þorgeirsson, tónlistarmaður og sagnfræðingur, og Baldur Ragnarsson, tónlistarmaður með meiru, halda úti. Þeir félagar hafa framleitt yfir 80 þætti saman en í þeim rifjar Flosi upp ýmsa áhugaverða liðna atburði og ræðir þá við Baldur. Stemningin í Draugum fortíðar virðist höfða til margra því yfir sex þúsund manns eru í umræðuhópi hlaðvarpsins þar sem eru oft lífleg skoðanaskipti um efnistök þess. Flosi og Baldur spjalla líka heilmikið um það sem hefur drifið á daga þeirra sjálfra á milli þátta og láta hugann reika. Í þessu spjalli hefur Flosi til að mynda rætt glímu sína við þunglyndi og yndi af áfengislausum bjórum. Uppgangur áfengislausra bjóra hefur einmitt verið mikill og hraður á Covid-tímum og haldist að einhverju leyti í hendur við vinsældir Drauganna. Forsvarsmenn Borgar brugghúss sáu sér því fljótt leik á borði og fengu Flosa til að lesa inn á auglýsingar fyrir Bríó, fyrsta áfengislausa bjórinn á Íslandi. Það samstarf vatt nýlega upp á sig þegar Flosi og Baldur fengu að taka þátt í að brugga nýjan áfengislausan bjór hjá Borg sem kemur á markað milli jóla og nýárs.
Sending af himnum ofan
„Ég hætti sjálfur að drekka áfengi fyrir rúmum 12 árum síðan en mér fannst áfram gaman að fara út að skemmta mér. Það pirraði mig hins vegar að það var ekkert annað í boði en sykraðir gosdrykkir sem ég hef ekki verið spenntur fyrir í seinni tíð. Tilkoma þessara áfengislausu bjóra var því himnasending fyrir mig,“ segir Flosi.„Ég hef verið hrifinn af því sem Borg er að gera, ég kynntist þessum mönnum og þeir búa yfir ástríðu og sköpunargleði. Þetta samstarf leiddi til þess að ég þarf að þola það að heyra í sjálfum mér í auglýsingatímum þegar ég horfi á fótbolta og svo kom brugghúsið með þessa hugmynd að gera með okkur bjór.“
Árni Theodór Long, bruggmeistari hjá Borg, segir að starfsmenn Borgar séu aðdáendur Drauganna og því hafi fljótt komið upp sú hugmynd að sækja nafn samstarfsbjórsins til sögunnar af ævintýrum Larry Walters. „Einn af mörgum frábærum þáttum þeirra heitir „Larry fer á flug“ og fjallar um mjög áhugaverða sögu Larry Walters og garðstólaævintýris hans. Við ákváðum því í sameiningu að sækja innblástur í þetta merkilega uppátæki við bruggun bjórsins,“ segir Árni. Larry þessi vann sér það til frægðar árið 1982 að láta draum sinn um að geta flogið verða að veruleika. Hann fyllti 45 veðurbelgi af helíumi og batt við garðstólinn sinn í San Pedro í Kaliforníu. Flugfar Larrys náði 4.900 metra hæð og flaug hann í 45 mínútur þar til hann festist á endanum í rafmagnslínu og komst heilu og höldnu til jarðar.
Flosi segir að þátturinn um Larry hafi verið einn sá fyrsti sem þeir gerðu og hann hafi notið mikilla vinsælda. Sagan þykir skemmtileg enda snúist hún um að láta drauma sína rætast en feli jafnframt í sér varnaðarorð um að maður verði að passa sig á drepa sig ekki í leiðinni.
„Það tengja margir við að eiga svona drauma. Larry fannst ekki nóg að fara í göngutúr, hann vildi svífa einn um í háloftunum og horfa niður á jörðina. Ef hann hefði hins vegar farið mikið hærra en hann gerði hefði hann vantað nokkuð sem er okkur mikilvægt, súrefni.“
Komin langt frá brennsanum
Árni segir að konseptið á bak við bjórinn, sem mun kallast Lóðastóla-Larry, sé vísun í sögu hans. Bjórinn sé í grunninn ákveðinn holdgervingur meðalmennskunnar rétt eins og Larry var, millidökkur og ósíaður, en sé svo þurrhumlaður á lokastigum sem gefi honum eftirminnilega sérstöðu, rétt eins og flugferðin gerði fyrir Larry. Flosi fékk einmitt það verkefni að sjá um humlana við bruggun bjórsins.„Það er ákveðið listfengi í þessu að gera bjór sem er frekar venjulegur en hafa svo eitthvað smá sérstakt við hann. Það passar við Larry. Ég þurfti nú bara að hella humlum ofan í pottinn við gerð bjórsins. Baldur var látinn vinna miklu meira, hann sá um eitthvað sem heitir hrat. Annars var afskaplega gaman að fá að kynnast þessari brugghúsamenningu betur og ég hlakka til að smakka bjórinn. Við erum komin ansi langt frá því að drekka brennsa í kók eins og við gerðum þegar ég var krakki.“