Slagur Sumir sjá ekki mun á pólitískum staðhæfingum og falsfréttum.
Slagur Sumir sjá ekki mun á pólitískum staðhæfingum og falsfréttum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fjölmiðlanefnd reyndi nýverið að kortleggja í hversu miklum mæli almenningur verður fyrir barðinu á falsfréttum og röngum upplýsingum í aðdraganda alþingiskosninganna í september og var Maskínu falið að framkvæma könnun.

Fjölmiðlanefnd reyndi nýverið að kortleggja í hversu miklum mæli almenningur verður fyrir barðinu á falsfréttum og röngum upplýsingum í aðdraganda alþingiskosninganna í september og var Maskínu falið að framkvæma könnun. Á grundvelli niðurstaðna könnunarinnar var síðan unnin skýrsla sem birt var á dögunum. Alls sögðust 11% sjá falsfréttir oft á dag en 53,4% aldrei.

Niðurstöðurnar eru forvitnilegar fyrir margar sakir, en aðallega vegna þess að þær virðast benda til þess að þessi nálgun fjölmiðlanefndar sé algjörlega gagnslaus. Til að mynda er einkennilegt að draga ályktanir um útbreiðslu falsfrétta á grundvelli lýsingar svarenda á eigin upplifun. Ýjar nefndin að þessu sjálf og segir í skýrslu sinni að þátttakendur kunni að hafa haft „ólíkan skilning“ á því hvað felst í falsfréttum eða röngum upplýsingum.

Í könnuninni var spurt um dæmi um rangar upplýsingar eða falsfréttir og hafa þau verið birt í heild sinni. Þegar svörin við þeirri spurningu eru skoðuð bera þau mörg með sér að gríðarlegur fjöldi svarenda hafi til að mynda flokkað tjáningu stjórnmálaskoðana sem þeir eru ósammála sem falsfréttir. Einnig staðreyndir sem einfaldlega henta ekki heimsmynd svarenda. Könnunin gefur því veikan grundvöll til að álykta nokkuð um útbreiðslu þess sem skoða átti.

Líklega sýna niðurstöðurnar ekki annað en gagnsemi hefðbundinna fjölmiðla.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson