Vesturberg Lýsingu þótti ábótavant í þessum undirgöngum. Eins er ekki gott aðgengi að þeim öðrum megin.
Vesturberg Lýsingu þótti ábótavant í þessum undirgöngum. Eins er ekki gott aðgengi að þeim öðrum megin. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Þörf er á úrbótum í nokkrum fjölda undirganga í Reykjavík. Bæta þarf lýsingu í allmörgum þeirra til að auka öryggiskennd vegfarenda og vegna sjónskertra og þeirra sem eiga erfitt með að rata.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Þörf er á úrbótum í nokkrum fjölda undirganga í Reykjavík. Bæta þarf lýsingu í allmörgum þeirra til að auka öryggiskennd vegfarenda og vegna sjónskertra og þeirra sem eiga erfitt með að rata.

Þetta kemur fram í skýrslu mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur um úttekt á undirgöngum borgarinnar. Hún var nýlega lögð fram í skipulags- og samgönguráði.

Í Reykjavík eru samtals 48 undirgöng og gerðu starfsmenn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu úttekt á þeim. Könnuð var lýsing, aðgengi, sýnileiki og hvort annar möguleiki var á þverun götu, t.d. hvort gangbraut var til staðar.

Úttektin sýndi að lýsing var í 33 undirgöngum, aðgengi var í 30 þeirra og við fern undirgöng var völ á annars konar götuþverun.

Skortur á aðgengi í undirgöngum getur t.d. verið vegna mikils bratta í göngunum eða stígum sem að þeim liggja og eins ef þar eru tröppur sem fatlað fólk getur ekki notað. Bent er á að mikilvægt sé að merkja undirgöng svo þau séu vel sýnileg vegfarendum.

Undirgöng þar sem lýsingu þótti ábótavant voru m.a. undir Vesturbergi, rétt við verslunina Iceland. Aðgengi er gott öðrum megin en einungis tröppur hinum megin. Aðeins ein pera er í ómerktum undirgöngum undir Vesturlandsveg við Sævarhöfða. Engin lýsing er í ómerktum undirgöngum undir Stekkjarbakka við Urðarstekk. Göngin eru ósýnileg frá götu og nágrenni en ekki er um aðra götuþverun að ræða þarna.

Lýsing er hins vegar til staðar í göngum undir Suðurhóla og þau eru aðgengileg. Hægt er að sjá í göngin frá íbúðum beggja vegna við. Eins er lýsing t.d. í göngum undir Breiðholtsbraut við Mjódd, göngum undir Reykjanesbraut við Stjörnugróf og göngum undir Höfðabakka við Árbæjarsafn. Aðgengi að undirgöngum þótti ábótavant m.a. við göng undir Miklubraut við Lönguhlíð, við göng undir Breiðholtsbraut við Elliðaár, við göng undir Reykjanesbraut við Mjódd og við göng undir Kristnibraut við Maríubaug.

Gott aðgengi er við göng undir Snorrabraut, undir Bústaðaveg við Veðurstofu og Breiðholtsbraut við Arnarbakka.