Handboltinn
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Adam Haukur Baumruk og Brynjólfur Snær Brynjólfsson voru atkvæðamestir Hauka þegar liðið vann nauman sigur gegn Aftureldingu í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í þrettándu umferð deildarinnar í gær.
Leiknum lauk með 30:29-sigri Hauka en Adam Haukur og Brynjólfur Snær skoruðu sjö mörk hvor.
Afturelding fékk tækifæri til að jafna metin í lokasókn leiksins en skot Birkis Benediktssonar fór framhjá markinu.
Haukar eru í öðru sæti deildarinnar með 20 stig en Afturelding er í sjöunda sætinu með 12 stig.
*Ásbjörn Friðriksson átti frábæran leik fyrir FH þegar liðið vann þriggja marka sigur gegn Gróttu í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi en Ásbjörn skoraði átta mörk í leiknum sem lauk með 25:21-sigri Hafnfirðinga.
Grótta var stekari aðilinn í fyrri hálfleik en FH komst 21:20 yfir þegar fimm mínútur voru til leiksloka og leit aldrei um öxl eftir það.
Phil Döhler átti mjög góðan leik í marki FH, varði 14 skot og var með 41% markvörslu, og Einar Baldvin Baldvinsson átti stórleik í marki Gróttu og varði 16 skot.
FH er í efsta sæti deildarinnar með 20 stig en Grótta er í tíunda sætinu með 7 stig.
*Þá átti Björgvin Páll Gústavsson stórleik í marki Vals þegar liðið vann tveggja marka sigur gegn HK í Kórnum í Kópavogi en leiknum lauk með 31:29-sigri Vals.
HK-ingar byrjuðu leikinn betur en Valsmenn unnu sig vel inn í leikinn og náðu mest fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik.
Björgvin Páll varði 18 skot í markinu en þeir Tumi Steinn Rúnarsson og Finnur Ingi Stefánsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Valsmenn.
Valur er með 18 stig í fjórða sætinu en HK er með 1 stig í neðsta sætinu.
*Leó Snær Pétursson var markahæstur Stjörnunnar þegar liðið vann ellefu marka stórsigur gegn ÍBV í Vestmannaeyjum en leiknum lauk með 31:20-sigri Garðbæinga. Leó Snær skoraði níu mörk í leiknum, þar af fjögur af vítalínunni.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Stjarnan tók öll völd á vellinum í síðari hálfleik.
Björgvin Hólmgeirsson skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og þá átti Brynjar Darri Baldursson stórleik í markinu og varði 20 skot.
Stjarnan fer með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar í 18 stig en ÍBV er í því fimmta með 17 stig.
*Allan Nordberg fór á kostum í liði KA þegar liðið vann öruggan níu marka sigur gegn Víkingum í Víkinni í Fossvogi.
Nordberg gerð sér lítið fyrir og skoraði tíu mörk í leiknum sem lauk með 31:22-sigri Akureyringa.
Staðan var 3:3 eftir sjö mínútna leik en þá tóku Akureyringar öll völd á vellinum og unnu sannfærandi sigur.
Einar Rafn Eiðsson skoraði sex mörk fyrir KA og Nicolas Satchwell varði átta skot í markinu.
Þetta var þriðji sigur KA í röð en liðið er með 12 stig í áttunda sætinu á meðan Víkingar eru með 2 stig í ellefta og næstneðsta sætinu.