Annars skil ég ekki alveg pælinguna; ef loka á ketti inni til að vernda fugla þarf þá ekki líka að loka fugla inni til að vernda ánamaðkana?

Þeir voru margir skellirnir á árinu, eins og gengur. Einn sá óvæntasti var svívirðileg aðför bæjarstjórnar Akureyrar, míns gamla heimabæjar, að þeirri göfugu skepnu kettinum. Til stendur að loka hann inni í svörtustu dýflissu og henda lyklinum, líkt og um skýlaust ásetningsbrot á sóttvarnarlögum væri að ræða. Það sem verra er, í fylkingarbrjósti aðfararinnar er minn gamli lærifaðir, Gunnar Gíslason, oddviti sjálfstæðismanna. Það var þungt högg. Maður þarf ekki óvini þegar maður á slíka vini. Ég man að Gunnar átti vörpulegan páfagauk í gamla daga, gott ef hann talaði ekki tungum. Eina skýringin á þessu galna uppátæki okkar manns hlýtur að vera sú að gauksi hafi orðið ketti að bráð. Hafa sveitarstjórnir þessa lands virkilega ekkert betra að gera?

Annars skil ég ekki alveg pælinguna; ef loka á ketti inni til að vernda fugla þarf þá ekki líka að loka fugla inni til að vernda ánamaðkana?

Hvað ætlar bæjarstjórn svo að gera við skáldið Kött Grá Pjé? Er hann ekki frá Akureyri?

Eins ólík og við erum, pistlahöfundarnir í þessu blaði, alltént þeir sem eru í fastri vinnu hjá Árvakri, þá eigum við eitt sameiginlegt: Djúpa ást og virðingu fyrir köttum. Ég meina, Ásdís má ekki sjá flækingskött á stjákli án þess að taka hann að sér, það búa fleiri kettir hjá Loga Bergmann en í Kattholti og bréfritari fer stundum hlýjum orðum um köttinn sinn í skrifum sínum en þeir félagar vita fátt skemmtilegra en að horfa saman á snóker í sjónvarpinu. Og malar þá hvor með sínu nefi.

Ég er engin undantekning; hef verið með kött eða ketti á heimilinu frá því að ég hóf búskap fyrir bráðum þrjátíu árum. Og þekki þá að góðu einu. Núna er það Gvendur dúllari, sem einmitt fagnar sjötugsafmæli sínu um þessar mundir. Hann er snarbæklaður, elsku karlinn, og lítur út fyrir að vera á áttunda bjór þegar hann ráfar um hverfið. Sannarlega sjón að sjá. Samt bjargar dúllarinn sér og eftir að hann uppgötvaði að nóg væri að berja duglega í matardallinn sinn til að fá ábót hefur kappinn staðið fyrir sinni eigin búsáhaldabyltingu í vaskahúsinu. John Bonham hefði ábyggilega farið hjá sér.

Minnisstæðust er samt Oriental-hefðarlæðan Loftsala-Menja Axfjörð sem varði ævinni ýmist í kjöltunni á mér eða á herðunum. Ég skrifaði heila bók með hana horfandi yfir öxlina á mér. Kettir líta gjarnan á mann sem stoðtæki. Hún linnti heldur ekki látum fyrr en hún fékk að sofa undir handarkrikanum á mér allar nætur. Já, við eigum ekki kettina okkar, þeir eiga okkur. Fyrir hönd okkar allra á Sunnudagsblaðinu segi ég því hátt og snjallt: Bæjarstjórn Akureyrar, skammastu þín! Svona gera menn ekki!