Málmey SK Skipverjar slökktu eldinn.
Málmey SK Skipverjar slökktu eldinn.
Orsök elds um borð í togaranum Málmey SK 1 í maí í vor var sú að raki komst í rafmagnsrofa í stakkageymslu, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndar samgönguslysa, siglingasviðs.

Orsök elds um borð í togaranum Málmey SK 1 í maí í vor var sú að raki komst í rafmagnsrofa í stakkageymslu, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndar samgönguslysa, siglingasviðs. Nefndin áréttar í lokaskýrslu að stakkageymsla um borð í skipum flokkist undir votrými.

Skipið var á leið til hafnar á Sauðárkróki er skipverjar urðu varir við brunalykt og í ljós kom að eldur var í rafmagnsrofa í stakkageymslu. Eldurinn hafði náð að læsa sig í kapalrennu og tréklæðningu bak við rennuna. Skipverjum tókst fljótlega að ráða niðurlögum eldsins.

Við rannsókn kom fram að eldurinn átti upptök í rafmagnsrofa fyrir eina af 220 volta ljósagreinum á vinnsluþilfari. Rofinn var ekki rakaþéttur og hafði verið settur upp þegar skipinu var breytt úr frystitogara yfir í ísfisktogara. Eftir atvikið var skipt um alla þrjá rafmagnsrofana fyrir ljósagreinar á vinnsluþilfari og settir rakaþéttir rofar samkvæmt staðli.