Gleði Leikmenn norska liðsins fögnuðu vel og innilega í leikslok.
Gleði Leikmenn norska liðsins fögnuðu vel og innilega í leikslok. — AFP
Þórir Hergeirsson er kominn í úrslitaleik heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik með norska landsliðið eftir öruggan 27:21-sigur gegn Spáni í undanúrslitum keppninnar í Granollers á Spáni í gær.

Þórir Hergeirsson er kominn í úrslitaleik heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik með norska landsliðið eftir öruggan 27:21-sigur gegn Spáni í undanúrslitum keppninnar í Granollers á Spáni í gær.

Noregur byrjaði leikinn betur og náði mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik, 8:5. Spánverjar neituðu hins vegar að gefast upp og þeim tókst að jafna metin undir lok fyrri hálfleiks og staðan því 11:11 í hálfleik.

Norðmenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti, náðu snemma þriggja marka forskoti á nýjan leik, 15:12, en Spánverjum tókst að minnka muninn í 14:15. Þá hrökk norska liðið í gang og þær náðu fjögurra marka forskoti, 19:15, þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Þá var allur vindur úr spænska liðinu, norska liðið gekk á lagið, og fagnaði öruggum sigri í leikslok.

Nora Mörk var markahæst í norska liðinu með átta mörk og Kari Brattset Dale skoraði sjö mörk. Þá átti Katrine Lunde mjög góðan leik í marki norska liðsins, varði 13 skot og var með 38% markvörslu.

Fyrr um daginn vann Frakkland nauman sigur gegn Danmörku í hinu undanúrslitaeinvíginu, 23:20.

Danir leiddu nánast allan leikinn en þegar tíu mínútur voru til leiksloka komust Frakkar yfir í fyrsta sinn, 21:20, og þeir létu forystuna ekki af hendi eftir það.

Það verða því Frakkland og Noregur sem mætast í úrslitaleik á morgun í Granollers en þetta er í tíunda sinn sem Noregur leikur til úrslita á stórmóti undir stjórn Þóris sem tók við norska liðinu árið 2009.