„Blóðfaðir minn fór til Bandaríkjanna þegar ég var rúmlega eins árs og ég hef engar minningar um hann frá þeim tíma. Ég hef bara séð hann á myndum sem mamma geymdi,“ segir leikkonan Aldís Amah Hamilton.
„Blóðfaðir minn fór til Bandaríkjanna þegar ég var rúmlega eins árs og ég hef engar minningar um hann frá þeim tíma. Ég hef bara séð hann á myndum sem mamma geymdi,“ segir leikkonan Aldís Amah Hamilton. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aldís Amah Hamilton, ung og upprennandi leikkona, er einn handritshöfunda og aðalleikari í Svörtu söndum, nýrri seríu í leikstjórn Baldvins Z sem frumsýnd verður á jóladag á Stöð 2. Aldís ætlaði sér aldrei að verða leikkona en örlögin gripu í taumana. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Í gömlu verkamannabústöðunum við Ásvallagötu hefur leikkonan Aldís Amah Hamilton búið sér fallegt heimili. Hún býður blaðamanni inn í litla og smekklega íbúð sína og hefur dekkað borð. Te og kaffi, smákökur og súkkulaði er í boði og eftir að hafa bragðað á öllum tegundum er tími til að spjalla.

Aldís er sjarmerandi og brosmild með leiftrandi brún augu og fallega liðað hár niður á bak. Dökka yfirbragðið fékk hún í arf frá föður sínum. Við ræðum um lífið og tilveruna, pabbann í Ameríku, tilviljanir sem leiddu hana á leiklistarbrautina og að sjálfsögðu Svörtu sanda, glænýja seríu sem frumsýnd verður um jólin. Þar leikur Aldís aðalhlutverkið, en það er ekki allt og sumt. Hún er einnig einn handritshöfunda, hún sem ætlaði aldrei að skrifa.

Rétti tíminn til að hitta pabba

Hin þrítuga Aldís er fædd í Þýskalandi þar sem foreldrar hennar voru bæði enskukennarar á þeim tíma. Aldís segist örugglega ekki hafa verið plönuð, en fljótlega eftir að hún leit dagsins ljós slitnaði upp úr sambandi foreldra hennar, en faðir hennar er bandarískur.

„Ég á eina hálfsystur pabba megin og þrjár stjúpsystur frá uppeldispabba mínum þannig að ég er mjög rík. Mamma kynntist Ella pabba þegar ég var lítil og þau hafa verið saman síðan. Blóðfaðir minn fór til Bandaríkjanna þegar ég var rúmlega eins árs og ég hef engar minningar um hann frá þeim tíma. Ég hef bara séð hann á myndum sem mamma geymdi. Það er kannski svolítið skrítið en þetta er minn raunveruleiki,“ segir hún og segir mann móður sinnar strax hafa gengið sér í föðurstað.

„Fólkið manns er þegar allt kemur til alls fólkið sem er til staðar, og það var blóðfaðir minn ekki,“ segir Aldís en segist hafa tekið upp samband við hann um ellefu ára aldurinn.

„Mamma hjálpaði mér að hafa uppi á honum og ég sendi honum bréf á eina heimilisfangið sem mamma var með, heim til ömmu minnar og afa, foreldra hans. Þau áframsendu svo bréfið til hans en í bréfinu var líka mynd af mér. Hann sendi mér bréf til baka með netfanginu hans og við hófum tölvupóstssamband. En hann hringdi einnig annað slagið og sendi mér stundum gjafir. Núna er auðveldara að vera í sambandi en áður og síðustu tvö ár hafa samskipti okkar verið miklu betri og jákvæðari. Ég er búin að kaupa miða út næsta sumar að heimsækja hann og hitta í fyrsta sinn,“ segir hún en hann býr í L.A.

„Ég upplifi alls konar blöndu af tilfinningum,“ segir Aldís þegar hún er spurð hvort hún sé spennt eða kvíðin.

„Ég er ekki hrædd um að mín sjálfsmynd litist mikið af þessum hittingi því ég er orðin það þroskuð. Það hafa áður komið tækifæri til að heimsækja hann en ég finn að núna er rétti tíminn,“ segir Aldís og segist hafa farið að hugsa um að nú á tímum kórónuveirunnar gæti allt gerst. Hún vill alls ekki missa af því að hitta pabba sinn í eigin persónu.

„Hann er svartur maður kominn af léttasta skeiði og eftir því sem ég best veit er hann ekkert í frábærum málum hvað varðar sjúkratryggingar og slíkt. Það ýtti mér af stað,“ segir Aldís og segir bæði amma sín og afi séu fallin frá.

„Samband pabba og þeirra var flókið og ekki náið. Í „blacklivesmatter“-bylgjunni var ég minnt á það að enn er hópur í Bandaríkjunum sem upplifir mikla reiði. Enda hafa margir þurft að lifa við hræðilega mikið misrétti og amma og afi voru í þeim hópi. Mér skilst að þau hafi ekkert verið mjög hrifin af því hvernig pabbi hagaði lífi sínu en ég vil alls ekki vanvirða minningu þeirra né draga of sterkar ályktanir. En ég varð mjög leið að heyra að þau væru fallin frá því ég hefði viljað hitta þau,“ segir Aldís og segist hafa dreymt um að þau hefðu tekið sér vel, þó hún hefði blandaðan bakgrunn.

„Ég á heila fjölskyldu þarna í Bandaríkjunum sem ég hef aldrei hitt og veit lítið sem ekkert um. Pabbi á sjö systkini í Detroit, en er ekki í sambandi við þau. Hann er mjög sérstakur. Það er mikil áfallasaga í fjölskyldunni í gegnum kynslóðirnar en það má rekja ættina aftur til þræla.“

Get ekki eignað mér harm svartra

Aldís er Vesturbæingur í húð og hár og hefur lítið fært sig þaðan, fyrir utan stutt stopp í Bretlandi, Noregi og fyrstu árin í Þýskalandi.

„Ég er alin upp á þessum bletti. Við mæðgur fluttum heim til Íslands þegar ég var þriggja ára og bjuggum fyrst á Seltjarnarnesinu. Við fluttum hins vegar fljótlega á Bárugötuna. Við fluttum svo með pabba á Framnesveginn og ég síðan hingað á Ásvallagötuna. Foreldrar mínir eru í 450 metra göngufæri, samkvæmt Google!“

Aldís segist varla hafa upplifað fordóma þegar hún var lítil, þrátt fyrir að vera dökk á brún og brá.

„Ég held að enginn hafi verið í pæla í að ég ætti svartan pabba en fólk tók kannski eftir því að ég var öðruvísi. En ég á helst bara fallegar sögur. Ég held að á Íslandi, þar sem við erum almennt einsleit, sé stundum horft á fólk sem er eitthvað öðruvísi og ég gerði það líka sjálf. Ég var eina brúna barnið á leikskólanum en ég held að ég hafi bara verið meira spennandi fyrir vikið,“ segir Aldís og brosir.

„Núna eftir „blacklivesmatter“ sé ég hversu mikil forréttindi það eru að vera ljósbrúnn. Ég er „samfélagslega samþykkt“ á litinn. Þegar fólk fór að tala um mig sem „svarta“ konu gat ég ekki samsamað mig því. Það er svo mikil vigt sem liggur að baki þessu lýsingarorði sem ég get ekki eignað mér. Í Ameríku yrði ég aldrei viðurkennd sem svört og ég yrði bara tekin af lífi ef ég ætlaði að eigna mér harm svartra í Bandaríkjunum. Ég er það sem kallast „white passing“ í þessu samhengi. En ég upplifi mig auðvitað bara sem venjulegan Íslending,“ segir Aldís og segist nýlega hafa lagst í lestur bóka til að skilja betur fordóma í garð svartra ásamt sögu þeirra í Bandaríkjunum.

„Ég las meðal annars bókina Sapiens eftir Yuval Noah Harari. Þessi bók breytti lífi mínu. Hreint og klárt. Það var mjög frelsandi að lesa um sögu mannskepnunnar. Þessi bók ætti að vera skyldulesning!“

Það sem ég geri aldrei aftur

Við snúum okkur aftur að lífsgöngunni, en Aldís fór í Versló eftir grunnskólann. Hún segir leiklistina ekki hafa blundað í sér sem barn og unglingur.

„En þegar ég horfi til baka má sjá skýr teikn. Ég vildi alltaf verða „performer“, en þá sem dansari og söngkona. Ég horfði á Beyoncé og hlakkaði mikið til að feta í hennar fótspor,“ segir Aldís og brosir breitt.

„Ég var alltaf góð í dansi og söng en á sama tíma rosalega óþolinmóð og nennti ekki að æfa mig eða gera það sem ég þurfti að gera. Ég hef aldrei ræktað þessa hæfileika nóg. Hvað var ég að gera í staðinn, kannski skemmta mér!“ segir Aldís og blaðamaður sannfærir hana um að það sé aldrei of seint að byrja að rækta hæfileika.

„Einstaklingar sem eru framúrskarandi á sínu sviði voru ekki á djamminu, en það er lærdómur í öllu. Ég ætla að reyna að sjá ekki eftir neinu.“

Aldís endaði á að fara í leiklistarnám í LHÍ eftir menntaskóla. Þó var hún í upphafi á leiðinni í kínverska viðskiptafræði, með stuttu stoppi í Bretlandi.

„Kínversk viðskiptafræði var alveg nýtt fyrirbæri þá,“ segir hún og hlær dillandi hlátri.

„Eftir Versló tók ég próf til að komast inn í enskukennaranám og komst inn. Skólinn var í Oxford og ég bjó þar í nokkrar vikur,“ segir hún og hugðist þá í raun feta í fótspor foreldranna sem eins og áður segir unnu sem enskukennarar fyrir margt löngu. Kennararéttindin buðu upp á tækifæri til að ferðast um heiminn og þá aðallega austur til Asíu. Hún komst fljótt að því að þetta var ekki hillan sem hún vildi vera á.

„Þetta var svo erfitt, eitt það erfiðasta sem ég hef gert. Ég var látin kenna og hafði enga hæfni né þolinmæði í það. Eftir námið fór ég til Noregs með þáverandi kærasta og það var engin snilld heldur,“ segir hún og hristir hausinn.

„Maður lærir af öllu. Nú veit ég hvað ég ætla aldrei að vinna við aftur,“ segir hún og hlær.

Gerði einleik úr uppsögninni

Eftir heimkomuna frá Noregi fékk Aldís fljótlega þá flugu í höfuðið að sækja um í leiklistarnámi eftir að hún hitti gamlan vin fyrir tilviljun á skemmtistað.

„Ég hafði þá reynt að komast inn í suðurkóreska Idolið, en ég hef mikinn áhuga á Suður-Kóreu. Mig langaði að syngja og dansa. Svo hitti ég vin minn á djamminu sem var á leið í leiklistarnám og hugsaði að kannski væri það málið. Helgina eftir hitti ég vinkonu sem segir mér að það séu einmitt inntökupróf í gangi og hún hvetur mig til að sækja um; ég hafi engu að tapa. En á þessum tíma var ég búin að skrá mig í kínverska viðskiptafræði og búin að sitja kynningarfundinn. En ég sótti líka um í Listaháskólanum og þrátt fyrir að klúðra aðeins umsókninni fékk ég samt að fara í inntökuprófið.“

Áttir þú alveg óreynd að fara að leika fyrir framan dómnefnd?

„Já, þetta er djúpa laugin. Ég komst ekki inn í Nemó, en á lokaárinu mínu söng ég í Vælinu. Ég hafði reyndar einu sinni leikið á sviði; það var í Hagaskóla en þar lék ég aðalhlutverkið í West Side Story. Nú þegar ég horfi til baka hugsa ég að auðvitað var leiklistin í spilunum, þó ég hafi ekki séð það þá,“ segir hún.

„Inntökuprófin voru rúmar þrjár vikur með allri biðinni á milli og urðu erfiðari og erfiðari. Ég fæ eiginlega trámatilfinningu þegar ég hugsa til baka, þetta reyndi svakalega á mig. Ég var alltaf jafn hissa að komast áfram í næsta holl. Ég bjóst aldrei við því. Svo kom að lokahollinu og ég lagði allt undir. Ég var þá að vinna á hóteli og fékk ekki frí sem ég átti inni þessa síðustu prófhelgi þannig að ég sagði upp á staðnum. Ég gerði einleik úr þessari uppsögn sem sló í gegn. Ég man þegar ég fékk póstinn og ég opnaði hann með mömmu og sá að ég hafði verið valin inn! Ég hoppaði í loft upp og mamma með.“

Vildi alltaf dansa og syngja

Var gaman í skólanum?

„Þetta var ógeðslega erfitt í fyrstu. Eftir fyrsta árið ætlaði ég að hætta en annað árið var skárra. Á fyrsta ári leið mér alltaf eins og við ættum að fórna okkur fyrir leiklistina. Einkalíf og annað mikilvægt átti að færa í aftasta sæti, sem ég var ósammála. Þetta var tekið á eins konar eitraðri hörku hjá sumum kennurum. Mér skilst að þetta sé mikið breytt, meðal annars eftir metoo-byltinguna,“ segir hún.

„Ég bara trúi því ekki að hægt sé að rækta eitthvað gott hjá fólki þegar því líður illa. Ég upplifði stundum að það ætti að brjóta mann niður svo hægt væri að byggja mann upp aftur,“ segir hún og nefnir að allir nemendur hafi ekki endilega sama framtíðardrauminn. Námið var mjög leikhúsmiðað.

„Mig dreymdi um að fara til Hollywood og verða fræg. Kvikmyndaleikur heillaði mig svakalega, sérstaklega í þessum stóru ofurhetjumyndum eða vinsælustu sjónvarpsþáttunum. En þegar allt kom til alls langaði mig alltaf bara til að syngja og dansa; það var alltaf mitt,“ segir Aldís og segir þriðja árið hafa verið langbesta árið. Þá náði bekkurinn líka mjög vel saman sem skiptir gífurlegu máli.

„Ég kláraði námið, lærði helling og er stolt af því,“ segir Aldís og segist hafa unnið sem flugfreyja hjá Icelandair með náminu, á sumrin og einnig síðar.

„Það var auðvitað gullöld hjá Icelandair og mjög skemmtilegt. Ég ferðaðist reglulega um Ameríku og víða um heim. Mér þykir vænt um flugið og þrátt fyrir að þeim kafla sé lokið í bili ætla ég aldrei að segja aldrei. Ég gæti vel hugsað mér að fljúga aftur einn daginn.“

Aldís fékk strax hlutverk í Þjóðleikhúsinu haustið eftir útskrift en þar lék hún Desdemónu í Óþelló í uppsetningu Vesturports.

„Það var gaman en ótrúlega erfitt og fannst mér ég ekki nógu góð fyrir neitt. Heilt yfir fékk sýningin misjafna dóma, annaðhvort hataði fólk hana eða elskaði,“ segir Aldís og segist hafa í kjölfarið fengið nokkur lítil hlutverk á sviði, en einnig hlutverk í sjónvarpsseríunni Brot.

„Það var geggjað að hafa flugið og geta í leiðinni byggt upp smá feril.“

Reyni að segja já frekar en nei

„Stóra tækifærið kom þegar ég kynntist rannsóknarlögreglumanninum Ragnari Jónssyni sem vann með okkur í þáttunum Brot. Hann hefur kennt leikurum að leika lögreglufólk og hefur verið í þessari senu lengi. Hann hefur mikinn áhuga á handritaskrifum og við fórum eitthvað að ræða saman. Þá var hann með hugmynd að þáttaröð sem varð síðar Svörtu sandar. Hann átti grunnhugmyndina og kveikjan að sögunni er frá honum komin. Hann vildi segja sögu af lögreglumanni sem fer út á land til að byggja upp feril sinn. Ég spurði hvort sú lögregla gæti ekki verið kona, og þá fór boltinn að rúlla,“ segir Aldís, en hún lék einnig í Kötlu.

„Það var mjög gaman að leika í Kötlu en þar vann ég meira sem verktaki. Svörtu sandar voru á öðru plani, það er barnið okkar!“

Hvernig hófst þessi samvinna að skrifa handritið? Hafðir þú skrifað eitthvað áður?

„Ég hafði aldrei skrifað og hafði óbeit á skrifum! Ég vildi frekar hætta að leika en að leggja það á mig.“

En hvað gerðist sem breytti þessu?

„Skrifin læddust aftan að mér. Til að undirbúa mig fyrir Brot sendi Ragnar mér erlenda glæpaþætti sem honum fannst raunverulegir. Þá hófst okkar samband á Facebook og í kjölfarið bað hann mig að hitta sig á kaffihúsi til að fá innlegg í skrifin frá konu. Hann var þá kominn með annan fótinn inn í framleiðslufyrirtækið Glassriver. Ég hitti hann og það endaði á að við sátum í þrjá tíma og fórum á flug. Stuttu síðar bað hann mig að vinna að handritinu með sér. Ég er að venja mig á að segja já frekar en nei... og ákvað því að segja já! Við gerðum þá drög að persónum, en ég fékk mikla hvatningu frá mömmu sem er rithöfundur og hörkupenni,“ segir Aldís en móðir hennar heitir Alda Helen Sigmundsdóttir.

„Baldvin Z hafði þá verið að leita að nýju efni og þetta rímaði vel við hans pælingar. Svörtu sandar eru lögreglusería en þættirnir snúast mjög mikið um líf karakteranna, samskipti og fortíð. Baldvin er fyrir drama,“ segir Aldís og segir að þau þrjú ásamt Andra Óttarssyni hafi sest niður og skrifað út söguna. Í framhaldinu sneri Andri sér að öðrum verkefnum á meðan þau unnu handritið, en hún nefnir þó að Andri hjá Glassriver eigi ennþá heilmikið í þáttunum.

„Þetta gekk fáránlega smurt fyrir sig og við vorum komin með fullklárað handrit á mettíma.“

Saga af uppgjöri, ást og harmi

Tökur hófust í apríl og segir Aldís að þær hafi gengið glimrandi vel.

„Baldvin heldur tryggð við sama fólkið og teymið í kringum hann er eins og fjölskylda. Þetta hefði ekki getað farið betur. Veðrið var það eina sem setti strik í reikinginn. Á þrítugsafmælisdeginum fagnaði ég í sól og blíðu hér í Reykjavík. Degi seinna hófust tökur á Kirkjubæjarklaustri en þá var kominn blindbylur og allt var á kafi í snjó. Sagan gerist að vori til þannig að það þurfti að breyta tökuplaninu á staðnum. Sumir leikarar enduðu fastir uppi á hóteli að bíða eftir nýjum tökudögum,“ segir hún.

„Ég lék með alveg frábæru fólki. Þór Tulinius skilar sínu ótrúlega fallega og það voru forréttindi að leika með Steinunni Ólínu, þeirri kanónu!“ segir hún og segir fleiri æðislega leikara í þáttunum og nefnir meðal annarra Ævar Þór Benediktsson, Aron Má Ólafsson, Pálma Gestsson, Kolbein Arnbjörnsson, Hönnu Maríu Karlsdóttur, Önnu Gunndísi Guðmundsdóttur og Láru Jóhönnu Jónsdóttur.

„Sagan er um lögreglukonuna Anítu sem fer aftur á heimaslóðir, á Glerársanda. Hún hefur ekki hitt mömmu sína í fimmtán ár og stígur því inn í óuppgerða fortíð sína. Morð er framið, en aðallega er þetta saga af flóknum fjölskyldum, mæðgum og uppgjöri þeirra,“ segir hún.

„Þetta er líka ástarsaga, saga af vináttu og saga af harmi. Þetta er eiginlega allt nema glæpasería!“ segir hún og segir þættina ekki um hetjur sem bjarga deginum, heldur um mannlegt fólk með sína breyskleika. Þættirnir eru átta talsins og verða fyrstu tveir sýndir á jóladag og annan í jólum.

Mun halda í höndina á mömmu

Ertu ekki spennt?

„Jú, en ég er líka drullustressuð!“ segir hún og segir að hvað sem gerist, hafi það allt verið þess virði. Hún segir það hafa verið frábært að vinna undir leikstjórn Baldvins.

„Hann er „eitthvað annað“. Við erum líka orðin svo ótrúlega góðir vinir. Hver dagur á setti var svo skemmtilegur. „Crew“-ið og allir sem komu að þessu standa mér ofsalega nærri. Við urðum lítil fjölskylda finnst mér. Jafnvel þótt serían floppi gjörsamlega lifi ég á því hvað var ofsalega gaman hjá okkur. Ég held ekkert að það gerist en auðvitað er maður alltaf með efasemdir um sjálfan sig. En ég er ekkert ein í þessu. Baldvin nær þvílíkum stjörnuleik fram úr þessum hópi leikara.“

Hvað tók við að tökum loknum?

„Ég er að leika aðalhlutverk í íslenskum tölvuleik hjá fyrirtækinu Myrkur Games og hef verið í tökum í vetur. Ég er í búningi og er heilsköpuð sem tölvuleikjakarakter. Þetta er ótrúlega flott og spennandi verkefni,“ segir hún.

„Svo fórum við fljótlega í að leggja drög að næstu seríu Svörtu sanda. Ég hef líka verið í leikhópnum Elefant í samstarfi við Þjóðleikhúsið og við kláruðum að gera leikgerð eftir Íslandsklukkunni og erum með leiklestur víða og umræður á eftir. Við reynum að taka inn það sem kemur úr umræðunum og munum svo nýta okkur það í sköpun á leikriti sem sýnt verður síðar.“

Hvaða hlutverk leikur þú, Snæfríði Íslandssól?

„Jón Hreggviðsson,“ segir hún og skellihlær.

Við förum að slá botninn í samtalið en það er ekki úr vegi á þessum árstíma að spyrja hvernig jólin hennar verða.

„Ég verð í næstu götu hjá mömmu og pabba með hundinn okkar. Svo horfum við saman á Svörtu sanda á jóladag og ég þarf örugglega að halda í höndina á mömmu!“