Ef ég væri hagfræðingur myndi ég reikna út vísitölu óvæntleika í tengslum við hátíðirnar. Hann virkar þannig að því óvæntari sem gjöfin er, því betra.

Það er erfitt að komast í jólaskap í roki og rigningu. Maður nær varla einu sinni að vinna upp almennilegt jólastress. Þetta veður er ekki að gera neitt fyrir hinn sanna jólaanda en er samt ekki jafn ójólalegt og hugtakið allratap. Sérstaklega ekki þegar það er reiknað sem hlutfall af jólagjöfum. En ég var sem sagt að lesa svo áhugaverðan pistil í jóladagatali Viðskiptaráðs um þennan fylgifisk hátíðanna.

Hagfræðingurinn Joel Waldfogel virðist ekki hafa haft neitt betra að gera en að reikna út hversu hátt hlutfall jólaverslunar félli undir þessa skilgreiningu. Hugtakið þýðir samkvæmt Wikipediu: Óskilvirkni á framboði og eftirspurn á vöru þannig að Pareto-kjörstöðu er ekki náð. Með öðrum orðum kaupir fólk vöruna eða þjónustuna og hlýtur ekki ábata af eða kaupir ekki vöruna sem það hlyti ábata af.

Allratap jólanna þýðir sem sagt á íslensku: Jólagjafir sem hitta ekki í mark.

Waldfogel komst að því að hlutfallið væri á bilinu 10-30 prósent. Sem þýðir á mannamáli okkar óhagfræddu 3-9 milljarðar af íslenskri jólaverslun. Sem er vissulega frekar mikið og pínu óstuð að fá svona tölur rétt fyrir jólin.

En það er samt órjúfanlegur hluti af þessari hátíð. Við köllum þetta reyndar sjaldnast þessu nafni. Hjá venjulegu fólki heitir þetta sennilega „hvernig datt honum í hug að gefa mér svona?“ eða „hvurn andskotann á ég að gera við þetta?“ eða jafnvel: „Nú, jæja. Peysa. Aftur.“

Í fullkomnum heimi hagfræðinnar myndum við annaðhvort millifæra á hvert annað eða gefa út nákvæma lista yfir það sem við þyrftum helst. Svo sætum við með símana okkar og merktum við þegar við opnuðum pakkana og reiknuðum út í huganum hvort við hefðum hagnast eða tapað á þessum viðskiptum öllum.

En jólin snúast ekki um það. Jólin eru hátíð sem snýst um það að reyna að gleðja þá sem okkur þykir vænt um. Og ef nokkur möguleiki er, koma þeim á óvart. Það er fátt fallegra en að gefa einhverjum eitthvað sem hann vissi ekki að hann langaði í. Ná að koma einhverjum svo mikið á óvart að hann hafi ekki einu sinni hugleitt gjöf í líkingu við þessa. Að sama skapi getur líka verið pínu vandræðalegt að þurfa að útskýra í löngu máli hvernig gjöfin virkar og til hvers á að nota hana.

Það er nefnilega svo margt sem skiptir meira máli en að fólk vanti nákvæmlega það sem það fær. Ef við fylgdum alltaf þeirri reglu að gefa eftir listum – af hverju ættum við þá að hafa fyrir því að pakka þessu dóti inn? Ég meina, það vissu þá allir hvað þeir væru að fá.

Ef ég væri hagfræðingur myndi ég reikna út vísitölu óvæntleika í tengslum við hátíðirnar. Hann virkar þannig að því óvæntari sem gjöfin er, því betra. Hin fullkomna gjöf myndi sameina gott hlutfall af vísitölu óvæntleika, gleði og notagildi.

Ég átti afmæli í byrjun desember og fékk nokkrar mjög skemmtilegar gjafir. Allar voru þær frábærar og enga þeirra sá ég fyrir. Sem gerir þær enn betri.

En stundum gerist það að gjöf hittir ekki nákvæmlega í mark. Ég hef alveg lent í því. En þá er alltaf plan B sem er að minna á að það er hugurinn sem gildir. Og plan C er að minna á að úti um alla borg eru nytjamarkaðir sem koma vörum í verð og peningunum á góðan stað.

Gleðileg jól!