[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Reynir Sveinsson Sandgerði Byggt og byggt . Kraftur hefur verið í húsbyggingum á þessu ári. Einu sinni söng maður fyrir börnin: „Heimskur maður byggði á sandi hús.

Úr bæjarlífinu

Reynir Sveinsson

Sandgerði

Byggt og byggt . Kraftur hefur verið í húsbyggingum á þessu ári. Einu sinni söng maður fyrir börnin: „Heimskur maður byggði á sandi hús.“ Þótt nafn bæjarfélagsins sé Sandgerði þá er ekki byggt á sandi hér í bæ.

Hér er mjög stutt niður á klöpp og víða stendur klöppin upp úr. Það eru breyttir tímar. Áður fyrr mokuðu menn frá klöppinni og steyptu beint á grjótið, en nú er klöppin fjarlægð og húsgrunnar reistir á sléttu efni.

Í dag eru um 30 nýbyggingar á misjöfnu byggingastigi. Auk þess er búið að breyta nokkrum húsum í einstaklingsíbúðir. Meðal bygginga má nefna pitsustað, beitningaskúra og rafmagnsverkstæði. Allt þetta iðar nú af mannlífi.

Skerjahverfi er nýtt íbúðarhverfi, ofan við knattspyrnuvöllinn við Stafnesveg. Í þessu hverfi verða yfir 300 íbúðir. Nú er langt komið að leggja götur og lagnir í fyrsta áfanga. Lóðir hafa verið auglýstar og hafa umsóknir borist um þær allar. Hverfið stendur aðeins hærra en byggðin í Sandgerði og verður gott útsýni út á hafið og til Eldeyjar.

Nýr leikskóli rís hér í Sandgeði. Jarðvegsvinna er hafin en lóðin er norðan við Byggðaveg. Þar mun koma hringtorg en nokkrar umræður hafa verið um staðsetningu leikskólans. Þarna er mesta snjóakistan í þau fáu skipti sem snjór er vandamál hér í bæ.

Covid-19 ætlar að vera til vandræða eina ferðina enn. Veiran hefur herjað á leikskólann Sólborg og einnig grunnskólann. Margfeldisáhrifin eru töluverð. Foreldrar þurfa að taka sér frí frá vinnu á meðan þessi vágestur gengur yfir. Lionsklúbbur Sandgerðis var búinn að gera ráð fyrir skemmti- og matarveislu fyrir eldri borgara í Suðurnesjabæ 4. desember síðastliðinn en henni var frestað. Einnig þurfti að fresta þessari veislu í fyrra en veiran tekur vonandi enda.

Rafhlaupahjól eru greinilega mjög vinsæl. Mikið er af þeim hér á götum bæjarins og oft er hraðinn stundum of mikill. Full þörf er á að börnum verði kenndar umferðarreglurnar en oft hef ég séð tvo á hjóli í einu. Einnig mætti minna meira á gildi endurskinsmerkja.

Skyldi vera að koma líf aftur í Rockville hverfið, þar sem bandaríski herinn var með radarstöð? Þar eru engin hús á svæðinu, aðeins steyptar grunnplötur undir fjölda húsa, og allar götur malbikaðar. Nú vantar bara starfsemi á þetta svæði. Einu sinni átti að setja þarna upp gagnaver, enda kostir svæðisins góðir fyrir vindkælingu. Lagðar voru fram teikningar af svæðinu á sínum tíma en svo varð ekki neitt úr neinu.

Út er komin bók um strand Jamestowns, skipsins sem strandaði úti fyrir Höfnum árið 1881. Halldór Svavarsson hefur unnið í fjögur ár við að safna heimildum og sögu þessa skips, sem var 100 metra langt og 20 metra breitt. Skipið var fullt af úrvalstimbri.

Í bókinni er rakin saga þess hvert timbrið fór hér á landi. Sveinbjörn Þórðason útvegsbóndi byggði glæsilegt hús við tjörnina í Sandgerði og nefndi það Efra-Sandgerði. Séra Sigurður Sívertsen, prestur á Útskálum, segir í annálum 1883 að víða sé verið að byggja timburhús á Suðurnesjum, en glæsilegast sé hús Sveinbjörns Þórðarsonar í Sandgerði. Lionsklúbbur Sandgerðis á húsið núna og hafa Lionsfélagar unnið í mörg ár við að endurbyggja það. Allt timbur í þessu elsta húsi Sandgerðis, sem orðið er 138 ára, er úr lestum skipsins Jamestowns.