Jólasveinarnir færðu sér tæknina í nyt á aðventunni 1976 og komu á þessum fína jeppa í bæinn.
Jólasveinarnir færðu sér tæknina í nyt á aðventunni 1976 og komu á þessum fína jeppa í bæinn. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sitja bestu og vönduðustu mennirnir alltaf sólarmegin í lífinu? Hvenær voru jólin vald vættanna yfir mönnunum? Og hvenær efndi Bylgjan til stórmannlegs átaks fyrir jólin? Komið með í ferðalag, allt að heila öld aftur í tímann.

Sitja bestu og vönduðustu mennirnir alltaf sólarmegin í lífinu? Hvenær voru jólin vald vættanna yfir mönnunum? Og hvenær efndi Bylgjan til stórmannlegs átaks fyrir jólin? Komið með í ferðalag, allt að heila öld aftur í tímann. Hvað var mönnum efst í huga á jólunum 1921, 1951 og 1986? Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Alvarlegur tónn var í jólahugleiðingu dr. Jóns Helgasonar biskups í Morgunblaðinu fyrir réttri öld, á aðfangadag 1921, enda ekki langt liðið frá lokum hildarleiksins sem við þekkjum sem fyrri heimsstyrjöldina. Jón talaði til efans í hjörtum okkar mannanna.

„Það er engan veginn svo auðvelt að trúa á kærleika guðs alment, eins og heimurinn er. Oftar skyldi maður ætla það sönnu nær, að guð hataði heiminn, eins og hann veltist í hinu vonda. Hugsum aðeins til undanfarinna 6-7 ára! Væri ekki fremur ástæða til að ætla, að guð hataði heiminn, eins og hann hefir sýnt sig þessi voðalegu ár, — þar sem vonska mannanna hefir birtst á jafn háu stigi?“ spurði hann.

Þótt við strikuðum yfir þessi voðalegu ár, þá var samt nóg, að dómi biskups, sem gæti gert okkur erfitt að trúa því, að guð elskaði þennan heim. „Lítum aðeins á eitt atriði: hinn gífurlega mismun á kjörum manna. Væri nú svo vel, að vér gætum sagt, að mismunur kjaranna stæði í réttu hlutfalli við mannkosti einstaklinganna, svo að það væru ávalt bestu og vönduðustu mennirnir, sem sætu sólarmegin í lífinu. En því er ekki að heilsa. Er eiginlega að furða, þótt skammsýnum mönnum komi slíkt undarlega fyrir sjónir, og að þeir spyrji: Getur sá guð verið réttlátur, sem slíkt lætur viðgangast og ef hann er ekki réttlátur, getur hann þá verið kærleiksríkur?“

Svar Jóns var afdráttarlaust já. „Og þó er ekkert sem vér þráum heitar en að mega trúa fagnaðarerindinu um kærleika guðs, og geta hvílst öruggir í því, eins og börn í móðurfaðmi, sannfærðir um kærleiksþel guðs gagnvart oss. Því að vér finnum, að án þessa yrði lífið oss hin mesta kvöl og byrði, og tilgangur þess óskiljanlegur með öllu.“

Jólin voru ekki hátíð ljóssins

Velvakandi í Morgunblaðinu var í sagnfræðilegum ham í pistli sínum á Þorláksmessu 1951. Og vangavelturrnar voru bara býsna merkilegar enda hafa jólin ekki alltaf haft sömu merkingu í hugum manna.

„Jólin eru helgust allra hátíða, þó eru þau ekki kristins uppruna, heldur má rekja þau til elztu og römmustu forneskju með germönskum þjóðum. Almennt mun hátíðin hafa gengið í garð um vetrarsólhvörf eða þegar nýmáni jólamánaðarins kviknaði. Aftur í grárri forneskju er þó hæpið, að fyrst og fremst hafi verið litið á jólin sem hátíð ljóssins. Öllu heldur eru þau tíminn, þegar ófreskjur og illvættir leika lausum hala og hafa meira vald yfir mönnunum en í nokkurn annan tíma. Frumhugsun jólanna er þá eiginlega hið mikla vald óvættanna yfir mönnum í svartasta skammdeginu. Enn eru lifandi fyrir hugskotssjónum okkar sögurnar um grýlu og jólasveinana og fjöldi annarra hindurvitna, er tengd hafa verið jólunum, eins og mannhvörfin á jólanótt af völdum óvætta o. s.frv.“

Aðaldægradvölin um jólin var drykkjan, að sögn Velvakanda. Í Noregi var það víst í lögum, að allir bændur, sem áttu sex kýr eða fleiri, yrðu að brugga tiltekinn slatta öls og efna til jóladrykkju upp á eigin spýtur eða með öðrum. Var þá drukkið minni ása. Þá voru færðar fórnir. Annað, sem einkenndi hin heiðnu jól, voru leikar þeir, er þá voru iðkaðir. „En með tilkvámu kristninnar á Norðurlönd hurfu fórnir og blótveislur jólahátíðarinnar, því að fyrir löngu hafði þá kristin trú tekið upp hina heiðnu jólahátíð.“

Alger umpólun varð með kristnivæðingu jólanna. „Svo mikil er helgi kristinna jóla,“ sagði Velvakandi 1951, „að þá má ekki spila né dansa, þaðan af síður rífast eða blóta. Þá var pokurinn sjálfur vís til að láta til sín taka og sökkva öllu saman. Jólanóttin er helgasta nótt ársins, þá láta menn loga ljós, þeir sem annars sofa í myrkri eða svo hefir það að minnsta kosti víða verið til skamms tíma.“

Frekari fróðleikur flaut með. Svo sem að í lok miðaldanna hafi borist kvartanir og kærur yfir því, að hinn mikli sægur helgidaga orkaði lamandi á efnahag þjóða. Páfarnir sáu sér því ekki annað fært en smáfækka helgidögum. Fram yfir miðja 18. öld var þríheilagt hér á landi á öllum stórhátíðum, en 26. október 1770 gaf konungur út tilskipun, þar sem þetta var numið úr lögum.

„Nú eru það kölluð brandajól, ef þríheilagt verður, aðfangadag eða þriðja í jólum ber upp á sunnudag. Stundum kalla menn það líka stórubrandajól, þegar Þorláksmessu ber upp á sunnudag eins og núna.“

Þá væri gott að lifa

Jólaljósin voru Ólafi M. Jóhannessyni hugleikin í grein í Morgunblaðinu á aðfangadag 1986. „Eitt slíkt kviknaði í gær á Bylgjunni er hinn notalegi morgunþáttarstjóri Páll Þorsteinsson tilkynti hlustendum að þeir gætu sent jólakveðjur til vina og vandamanna gegn ákveðnu gjaldi og svo bætti hann Páll við: Allur ágóði af kveðjunum rennur til öldrunarmála.“

Ólafur sagði þetta stórmannlega framtak þeirra á Bylgjunni leiða hugann að því hversu margir störfuðu að hvers kyns líknar- og hjálparstarfi um jólin. „Ég veit til dæmis til þess að Hjálparstofnun kirkjunnar hafa borist álíka fjárhæðir í kyrrþey nú um jólin og Rauða krossinum.

Máski vill fólk sjá peningana fara beint til hinna bágstöddu en starfsmenn Hjálparstofnunar kirkjunnar hafa ætíð fylgt þeirri gullnu reglu að fara á vettvang með féð.“

Óskar Jónsson skrifaði hugvekju í sama tölublað og sagði gleði og fögnuð eiga að einkenna jólahátíðina og gera það einnig, en mismunandi mikið. „Hér á landi hafa jólin indælis áhrif á þjóðina. Það besta í manninum kallast fram. Fólkið sýnir meiri gleði, er kærleiksríkara og gjafmildara. Kirkjusóknin er betri en á öðrum tímum ársins. Fögnuður og gleði jólanna ætti að vara allan ársins hring, þá væri gott að lifa.“

Óskar sagði anda jólanna vera anda fyrirgefningar, fórnar og þjónustu. „Jesús tók á sig þjóns mynd, og það er hann sem er fyrirmyndin. Kristnir menn eiga í Jesú nafni að vinna kærleiksverkin allt árið.“

Utan úr heimi var það helst að frétta að Boris Becker, „tennisundrið frá Leimen“ fékk áheyrn hjá Jóhannesi Páli II páfa í Páfagarði. Af ljósmyndinni að dæma virtist hafa farið vel á með þeim félögum. Þá hafði leikarinn John Travolta stungið við stafni í Hvíta húsinu í Washington til að þess að afhenda Nancy Reagan stuðningsyfirlýsingu fjölda skemmtikrafta við baráttu forsetafrúarinnar gegn eiturlyfjum.

Já, sameinaðir stöndum vér. Um jólin sem endranær.