Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Eftir Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur: "Fyrir síðustu kosningar kallaði ég þetta að fara „inn með úthverfin“. Að færa þjónustuna út í úthverfin"

Þéttbýli er alltaf í þróun. Íbúum fjölgar og þá þarf að finna íbúðum nýtt pláss. Það verða breytingar á samsetningu fjölskyldunnar sem kallar á öðruvísi húsnæði. Í staðinn fyrir að það séu margar kynslóðir saman í húsi eru tengdar fjölskyldur kannski að leita að heppilegu húsnæði innan sama hverfis eða sömu götu, af mismunandi stærð. Í eldri hverfum lætur fólk sig dreyma um fleiri baðherbergi. Eldra fólk vill gjarnan minnka við sig og finna aðra íbúð við hæfi en halda sig við hverfið sem því þykir vænt um. Við þessum óskum og mun fleirum þarf að bregðast í skipulagi borgar sem á að vera góð fyrir alla.

Inn með úthverfin

Í skipulaginu er líka mikilvægt að huga að því að fólk geti nálgast sem mesta þjónustu í göngufæri við heimili sitt. Fyrir síðustu kosningar kallaði ég þetta að fara „inn með úthverfin“. Að færa þjónustuna út í úthverfin til að ekki þurfi nauðsynlega að stíga upp í bíl eftir brauðinu með morgunmatnum eða mjólkinni í kaffið. Að það sé hægt að fara í klippingu og blómabúð í hverfinu. Fá sér bita á hverfisveitingastaðnum. Auk þess sem hægt sé að labba í skóla, leikskóla og sund.

Í tungumáli skipulagsfræðinga er þetta kallað „15 mínútna hverfi“, þar sem hugsunin er að ekki taki íbúa hverfisins lengri tíma en kortér að ganga að helstu þjónustu. Þetta er það sem borgarbúar í öllum hverfum kalla eftir. Að þjónustan sé í göngufæri.

Þétting fyrir hverfisbraginn

Fyrir sum eldri hverfi þarf að finna leiðir til að byggja nýjar íbúðir til að geta boðið upp á fjölbreyttari íbúðakosti innan hverfis. Það þarf líka að styrkja hverfið, með fleiri íbúum til að það sé grundvöllur fyrir fjölbreyttari þjónustu innan hverfis. Þegar mörg hverfi í Reykjavík voru að byggjast upp, svo sem í Breiðholti, Árbæ og Bústaðahverfi, voru mun fleiri sem bjuggu í hverri íbúð. Með færri íbúum í hverri íbúð fækkar íbúum hverfisins og eru þau ekki eins sjálfbær og þau voru fyrir nokkrum áratugum. Til að það sé hægt að reka hverfisveitingastaðinn eða kaffihúsið þurfa að vera nógu margir í nágrenninu sem vilja setjast inn og njóta veitinganna. Það þurfa að vera nógu mörg börn í hverfinu til að reka þar leikskóla.

Ný uppbygging

Í öðrum hverfum höfum við tækifæri til að bjóða upp á skipulagið fyrir þjónustu strax frá upphafi. Þjónusta innan hverfis er til að mynda einkennandi fyrir skipulag Nýja Skerjafjarðar, sem á sama tíma býður upp á aukna þjónustu í nágrenni þeirrar byggðar sem þegar er í Skerjafirði.

Þjónusta innan hverfis er líka einkennandi fyrir nýtt skipulag Ártúnshöfða sem við samþykktum í borgarráði á fimmtudag. Þar mun að hluta léttur iðnaður víkja fyrir nýrri fjölbreyttri byggð í kringum Krossmýrartorg, sem verður jafnframt upphafsstöð fyrsta áfanga borgarlínu.

Bara fyrstu áfangar þessara nýju byggða gera ráð fyrir 2.260 íbúðum í spennandi og nútímalegum hverfum sem byggð verða upp með manneskjuna og fjölbreytileika okkar allra í fyrirrúmi. Eftir einhverja áratugi getur svo verið aftur kominn tími til að endurskoða skipulag þessara nýju hverfa, til að íbúðir og þjónustan innan hverfis muni þá enn betur henta þeim sem þar munu búa. Því þróunin endar ekki með þessu skipulagi, heldur eigum við alltaf að hafa í huga hvernig skipulagið þjónar íbúunum best.

Höfundur er formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar.

Höf.: Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur