[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Friðgeir Einarsson. Benedikt, 2021. Innbundin, 237 bls.
Stórfiskur er grátbrosleg saga sem rennur eðlilega áfram, síðu fram af síðu. Þar eru hvalveiðar skoðaðar í víðu samhengi, alveg án þess að lesandinn sé mataður á upplýsingum.

Aðalpersóna bókarinnar er Frans, íslenskur útbrunninn hönnuður í verkefnaþurrð sem þarf að glíma við sjálfan sig og umhverfi sitt þegar íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki biður hann um að hanna fyrir sig myndmerki. Frans vill ekki skila af sér neinu hrafnasparki og leggst því í mikla rannsóknarvinnu á hvalveiðum og fyrirtækinu sem um ræðir. Á sama tíma fæst Frans, sem búsettur er í Þýskalandi í upphafi bókar, við veikindi sem gera honum erfitt fyrir að vinna. Til þess að leita sér lækninga og sinna rannsóknarvinnunni flýgur hann til Íslands.

Eflaust hafa Íslendingar sem búsettir eru í útlöndum sérstaklega gaman af þeim lýsingum í bókinni sem snúa að baráttu Frans við að fá þjónustu frá hinu opinbera sem maður með fæturna hvorn í sínu landinu. Undirrituð hefði jafnvel viljað sjá meira púður sett í þær útlistanir og að sá hluti bókarinnar hefði verið botnaður betur.

Í gegnum rannsóknarvinnu Frans fær lesandinn áhugaverða innsýn í þá heima sem umkringja hvalveiðar, þ.e.a.s. veruleika þeirra sem veiða hvali, skoðanir þeirra sem leggjast hart gegn hvalveiðum og allt þar á milli. Spurningum er velt upp um arðsemi hvalveiða, ljósi er varpað á tvískinnunginn sem felst í því að mótmæla hvalveiðum en styðja aflífun margra annarra dýra og eru sjónarmið andstæðra fylkinga reifuð á skemmtilegan hátt.

Sýnir án þess að segja

Frans stendur einhvern veginn í miðjunni á öllu saman, hlutverk hans er ekki að styðja einn málstað fremur en annan heldur fremur að meðtaka upplýsingar og vinna með þær. Frans afar trúverðug persóna og er ekki annað hægt en að hrósa Friðgeiri Einarssyni sérstaklega fyrir afar sterka persónusköpun hvað Frans varðar. Það er auðvelt að fá tilfinningu fyrir Frans, alveg án þess að persónueinkennum hans sé troðið upp á lesandann. Þeim er þvert á móti sáldrað víðs vegar um bókina, gjarnan í gegnum það sem Frans segir eða gerir.

Hann er síður en svo eina sterka persóna bókarinnar. Þar er að finna nokkuð marga skrautlega karaktera og má þar helst nefna hvalveiðimanninn Karl Guðmundsson en honum svipar um margt út á við til Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals hf. Það er einmitt þannig í bókinni að ýmislegt er kunnuglegt, auðvitað Karl sjálfur, fyrirtækið sem hann rekur og stefin í kringum hvalveiðarnar en málið er skoðað út frá óvenjulegu sjónarhorni Frans.

Það er engin æsispenna í bókinni en Friðgeiri tekst samt sem áður vel upp með að halda eftirvæntingu lesandans og er söguþráðurinn brotinn upp á skemmtilegan og frumlegan hátt með upptökum sem Frans tekur í rannsóknarvinnu sinni. Þær veita sögunni enn raunverulegri blæ. Söguþráðurinn er vel unninn, raunsær og trúverðugur eins og bókin í heild sinni, en samt má alveg nefna að ekki alveg allir endar eru fullhnýttir.

Í það heila er Stórfiskur fínasta skáldsaga með sterk tengsl við raunveruleikann. Hún er launfyndin og streymir áfram að því er virðist algjörlega átakalaust.

Ragnhildur Þrastardóttir

Höf.: Ragnhildur Þrastardóttir