Faraldur Ellefu ára gamall drengur bólusettur við kórónuveirunni í Berlín á þriðjudaginn. Heilbrigðisyfirvöld hvetja til þátttöku í bólusetningum.
Faraldur Ellefu ára gamall drengur bólusettur við kórónuveirunni í Berlín á þriðjudaginn. Heilbrigðisyfirvöld hvetja til þátttöku í bólusetningum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Börnum hér á landi á aldrinum 5 til 11 ára býðst bólusetning við kórónuveirunni í næsta mánuði, samkvæmt því sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur upplýst. Enn liggur ekki fyrir hvernig framkvæmdin verður en það ætti að skýrast fljótlega.

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Börnum hér á landi á aldrinum 5 til 11 ára býðst bólusetning við kórónuveirunni í næsta mánuði, samkvæmt því sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur upplýst. Enn liggur ekki fyrir hvernig framkvæmdin verður en það ætti að skýrast fljótlega.

AFP-fréttastofan greindi frá því í gær að bólusetningum barna á þessum aldri væri nú hraðað víða í Evrópulöndum. Ástæðan væri sú að aukinn fjöldi barna smitaðist af veirunni. Hefur þessi aukning verið rakin til Delta-afbrigðisins, sem orðið er ríkjandi, en hröð útbreiðsla Ómíkron-afbrigðisins hefur einnig áhrif á afstöðu heilbrigðisyfirvalda.

Bólusetning barna er þegar hafin í fimm Evrópulöndum; Grikklandi, Króatíu, Ungverjalandi, Þýskalandi og Spáni. Fleiri ríki auk Íslands eru að undirbúa slíkar bólusetningar, þar á meðal Tékkland og Litháen. Í Þýskalandi hefur bólusetningin fram að þessu miðast við börn með undirliggjandi sjúkdóma en nú mun hún standa öllum börnum til boða ef foreldrar óska þess. Í Bandaríkjunum hafa þegar fimm milljónir barna á aldrinum 5 til 11 ára verið bólusettar.

Efasemdaraddir hafa heyrst um bólusetningar barna og reyndar bólusetningar við kórónuveirunni yfirhöfuð, en mikill meirihluti fólks virðist þó víðast hvar hlynntur þeim.

Markmið bólusetninga meðal barna er að koma í veg fyrir alvarleg veikindi þeirra vegna veirunnar og draga sem mest úr þeim truflunum sem orðið hafa á skólastarfi.

Aukin smit meðal barna

Í byrjun þessa mánaðar sendi Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) frá sér skýrslu um bólusetningar barna 5 til 11 ára. Skýrslan er einkum ætluð fagfólki en hefur verið birt á netinu. Fram kemur að gögn frá Evrópuríkjum sýna að börn á þessum aldri smitast í auknum mæli af veirunni og fjölgun hefur orðið á innlögnum þeirra á sjúkrahús. En almennt eru einkenni sjúkdómsins hjá börnum þó mild og eftirköst væg.

Í skýrslunni segir að upplýsingar um 65.800 börn 5 til 11 ára sem fengu veiruna í 10 Evrópulöndum leiði ljós að 0,61 prósent þeirra þurfti á sjúkrahúsvist að halda og 0,06 prósent hafi verið lögð inn á gjörgæslu.

Skýrsla ECDC var unnin áður en Ómíkron-afbrigðið tók að breiðast út og gæti því tilfellum meðal barna hafa fjölgað.

Mikill meirihluti barna (78 prósent) í fyrrnefndum hópi sem þurftu á sjúkrahúsinnlögn að halda átti ekki við undirliggjandi sjúkdóma að stríða.

Meira um kvíða og vanlíðan

Í skýrslunni er einnig gert að umræðuefni að það séu ekki aðeins bein sjúkdómseinkenni frá kórónuveirunni sem hrjá börn vegna faraldursins. Kvíði og vanlíðan sé áberandi vegna fylgikvilla eins og lokunar skóla og annarra sóttvarnaráðstafana.

Sérfræðingar sem vitnað er í hafa reiknað út að bólusetning 5 til 11 ára barna muni að jafnaði draga úr smitum í samfélaginu um 8 til 15 prósent (að meðaltali 11 prósent). Áhrifin verði þó minni í löndum þar sem bólusetning fullorðinna hefur gengið illa, en að sama skapi meiri í löndum þar sem þátttaka í bólusetningum hefur verið góð.

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) veitti 25. nóvember jákvæða umsögn um bólusetningar 5 til 11 ára barna og byggði hana á upplýsingum sem fengust úr rannsókn á rúmlega þrjú þúsund börnum á þessum aldri sem höfðu verið bólusett. Mælt er með því að börn sem eiga á hættu að veikjast alvarlega af völdum kórónuveirunnar verði sett í forgang við bólusetningar. En þar sem börn án undirliggjandi sjúkdóma geti einnig þurft á sjúkrahúsvist og jafnvel gjörgæslu að halda er hvatt til þess í skýrslunni að heilbrigðisyfirvöld í löndum Evrópu íhugi almenna bólusetningu barna. Huga þurfi að kostum og göllum bólusetningar þeirra og meta með hliðsjón af almennri stöðu faraldursins í hverju landi áður en ákvörðun sé tekin.

„Ekki hættulegt að fá sprautu“

„Það er ekki hættulegt að fá sprautu gegn Covid-19. Aukaverkanir geta komið eftir bólusetningu en alvarlegar aukaverkanir eru mjög sjaldgæfar. Það er verra að fá Covid-19-sjúkdóminn, líka fyrir börn.“ Þetta má lesa á upplýsingasíðu íslenskra heilrigðisyfirvalda um kórónuveirufaraldurinn, covid.is. Fram kemur að hér á landi hafi bóluefni frá fyrirtækinu Pfizer/BioNTech verið notað fyrir 12-17 ára börn. Það hafi leyfi frá Lyfjastofnun til slíkrar notkunar og hafi verið gefið börnum í mörgum löndum með góðum árangri. Börnin fá vægari skammt af bóluefninu en fullorðnir.